149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir andsvarið. Jú, ég hlýt að fyllast bjartsýni á það að hlutirnir geti breyst. Auðvitað fáum við þessa fjármálaáætlun í hendurnar í fjárlaganefnd og hæstv. fjármálaráðherra hvatti okkur sérstaklega til þess, á fundi sem við áttum með honum þegar hann var að kynna okkur þessa fjárhagsáætlun, að fara vel yfir hana og ígrunda hana og hafa opinn huga fyrir því. Ef við sæjum eitthvað sem betur mætti fara ættum við að vera dugleg að benda á það.

Jú, ég hlakka til að takast á við þessa fjárlagagerð og vona svo sannarlega að við getum unnið vel. En ég geri mér ekki grein fyrir því sem alger nýliði í nefndinni hversu langt við getum gengið og hvaða raunverulegu áhrif nefndin getur haft á það sem við erum að fá í fangið frá ráðherranum.

Að tala um fátækt er í raun eitt og ég er þakklát fyrir tilkomu Flokks fólksins og raddar þeirrar sem hér stendur núna. Ég óskaði eftir að fá að koma hingað til að vera málsvari okkar öryrkja og þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi og ég er þakklát fyrir að vera hér stödd og þakklát fyrir að þingheimur hefur tekið utan um málaflokkinn oftar og meira á síðasta ári en ég held að sagan sýni að gert hafi verið til langs tíma litið.

Ég segi: Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og ég vona svo sannarlega að við getum sýnt það í verki með djörfung og dug að við getum breytt hlutunum í betra horf og við getum gert það saman í fjárlaganefnd.