149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stjórnarsáttmálann sem verið er að vinna eftir, hann hlýtur að þurfa að rata vel inn í þessa fjármálaáætlun, og þá sér í lagi í ljósi gerðra kjarasamninga. Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni styðja við að gerð kjarasamninga verði farsæl.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvert er svigrúm þessarar ríkisstjórnar til að gera eins og segir í stjórnarsáttmálanum, til að styðja við farsæla niðurstöðu við gerð kjarasamninga? Aukavarasjóðurinn er eitthvað hækkaður. Ekki tókst að finna út nákvæmlega hve mikið því að tölurnar eru misvísandi, þótt hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sé nú orðinn sæmilega góður í að glöggva sig í gegnum það og mun hann kalla eftir því í fjárlaganefnd að fá það á hreint hvað verið er að hækka í þessum varasjóði, almenna varasjóðnum — svo að þið sem heima sitjið skiljið er kominn einhver sjóður upp á 10 milljarða, okkur sýnist á einum stað talað um að hann fari upp í 30 milljarða. Hvað nákvæmlega er hann mikill? Því út úr þessum sjóði getur ríkisstjórnin fært til peninga til að styðja við þau verkefni sem eru nauðsynleg á tímabilinu.

Jafnframt langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver er samningsstaða hennar í fjárlagagerðinni í haust, við að styðja við gerð kjarasamninga, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, eftir að hún og stjórnarþingmenn hafa samþykkt þessa fjármálaáætlun í vor? Hún á að koma til síðari umr. um miðjan maí, verður líklega samþykkt einhvern tíma fyrir júnílok. Eftir að stjórnarþingmenn eru búnir að samþykkja þessa fjármálaáætlun, að hve miklu leyti eru þeir búnir að læsa sig inni? Klárlega verður þá ríkisstjórnin að leggja fram fjárlagafrumvarp sem endurspeglar það. En er hún (Forseti hringir.) búin að festa alla stjórnarþingmenn við að geta ekki breytt því í þinginu næsta haust ef svo ber undir — til að styðja við gerð kjarasamninga?