149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil draga fram að það er margt í þessari fjármálaáætlun sem mér hugnast, margir jákvæðir punktar. Ég held að flestir geti tekið undir að það er gott að auka útgjöld til ákveðinna málaflokka þar sem nauðsynlegt er að byggja upp innviði sem hafa setið á hakanum.

Það er í rauninni allt fyrir alla, sérstaklega innan ríkisstjórnarflokkanna, innan þessarar fjármálaáætlunar. Það er verið að reyna að samþætta mjög ólík sjónarmið. Það er það sem við í Viðreisn vöruðum við á síðasta ári og gerum aftur, þessi eitraða blanda, annars vegar að lækka skatta og hins vegar að halda áfram að þenja út útgjöldin. Þau eru til góðra hluta, það er enginn að mótmæla því, en þetta er bara ósamræmanlegt. Þetta er það sem við höfum verið að draga fram, hvernig við verjum og forgangsröðun hlutunum.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um framsæknar skattkerfisbreytingar. Þær eru virðingarverðar að mörgu leyti. Það er verið að reyna að ná í ákveðinn enda en ekki nægilega mikið. Við í Viðreisn höfum lagt fram okkar tillögur upp á 14 milljarða sem fara ekki í nákvæmlega sömu áherslupunkta og hjá núverandi ríkisstjórn. Við höfum sagt: Við viljum lækka skatta og útgjöld sérstaklega á lág- og millitekjuhópa. Ekki láta þetta fara upp allan skalann. En Vinstri græn kjósa að fara með skattkerfisbreytingarnar upp allan skalann, líka inn í hátekjuhópana. Það finnst mér ekkert endilega mjög framsækið.

Hitt er síðan að ég hef verið að fylgjast með umræðunni í dag og það er miður, finnst mér, hvað ríkisstjórnin er í mikilli afneitun, allt að því viðkvæm þegar uppi er höfð eðlileg gagnrýni. Það er loðnubrestur, það er samdráttur í ferðaþjónustu. Við sjáum fram á uppnám varðandi kjarasamninga og fleira. Nákvæmlega það sem hefur verið dregið fram í fjármálaáætluninni að geti leitt til þess að ríkissjóður verði fyrir tekjutapi. Talsmaður — fyrirgefið, forseti.

(Forseti (SJS): Það er ekki ...)

Þá ætla ég að fá aukinn tíma af því að ég er einmitt að ræða um talsmann Vinstri grænna, sem sagði í dag eftir spurningu um hvort ætti að lækka skatta eða draga úr ríkisútgjöldum, að ef hún réði ein myndi hún hætta við að lækka skatta. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja forsætisráðherra: Hvar ætlar forsætisráðherra að leggja á? Hvar ætlar hún að forgangsraða? Fjármálaráðherra hefur talað um að það liggi ljóst fyrir hvar þurfi að skera niður (Forseti hringir.) ef það verða áföll. Vinstri grænir hafa sagt: Við viljum frekar hætta við að lækka skatta. (Forseti hringir.) Hvað vill forsætisráðherra?