149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér finnst miður að upplifa enn og aftur afneitun ríkisstjórnarinnar gagnvart stöðunni eins og hún er í dag. Það blasir við öllum sem fylgjast með viðskiptaumhverfinu og efnahagsumhverfinu.

Gott og vel. Skattkerfið í átt að norrænu umhverfi. Ekki nema að hálfu leyti. Við í Viðreisn ítrekuðum það. Þetta 14–15 milljarða svigrúm sem við höfum til þess að lækka skatta, við setjum það ekki í hátekjufólkið en ríkisstjórnin er að setja það upp allan skalann. Við einblínum á lág- og millitekjuhópinn. Gott og vel. Það er ein pólitík meðan ríkisstjórnin rekur aðra.

Ég vil fá að ítreka spurningu mína. Það var alveg skýrt af hálfu fjármálaráðherra þegar hann svaraði því hvað yrði gert þegar þrengingar yrðu. Hann sagði: Það á að skera niður útgjöld. Þegar talsmaður Vinstri grænna var spurði í dag: Hvað á að gera? Á að hætta við að lækka skatta eða skera niður útgjöld? sagði hún að hún vildi frekar hætta við að lækka skatta.

Hvað ætlar forsætisráðherra að gera ef skórinn kreppir að? Er hægt að fá skýra pólitíska línu? Eða er málið svona viðkvæmt, enn og aftur, við ríkisstjórnarborðið að það er ekki hægt að segja hlutina upphátt?