149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en mig langar til að ítreka spurningu mína um þetta þróunarfélag sem til stendur að stofna um tilteknar eignir, hvort ráðherra geti farið aðeins nánar í það. Ég trúi ekki öðru en að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar, þetta virðist komið það langt.

Síðan langar mig að nýta þær mínútur sem ég á eftir til að beina sjónum aðeins að þjóðskrá. Hæstv. ráðherra kom inn á það hér rétt áðan að hann ætlaði að tala um hana og hafði síðan ekki tíma. Mig langar til þess að biðja hann um að gefa sér tíma til þess. Er hæstv. ráðherra sáttur við hvernig búið er að þjóðskrá í þessari fjármálaáætlun ef haft er í huga að ansi mörg verkefni eru fram undan? Ýmislegt hefur hann farið í sjálfur en ég bendi líka á mál sem heyra kannski ekki beint undir hann en eru í frjálsræðisátt að mörgu leyti. Það er vænt frumvarp um kynrænt sjálfræði, vænt frumvarp um skipta búsetu eða vonandi tvöfalt lögheimili, mögulegt frumvarp um nafngiftir (Forseti hringir.) og svo mætti lengi telja. Mörgum þessara mála hefur í gegnum tíðina einfaldlega verið svarað á þann veg að tölvan segi nei. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er svo búið um hnútana núna að þjóðskrá geti svarað já?