149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:09]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Það fór eins og ég bjóst við, ekki aðeins að ég fengi það svar að málið væri í nefnd heldur líka efasemdir um hversu langan tíma það myndi taka að leggja eina eða tvær flugbrautir í staðinn fyrir það sem nú er og hvað það myndi kosta.

Ég vil minna á það í fyrsta lagi að okkur Íslendingum hefur aldrei vaxið í augum að leggja flugbrautir. Þær eru hér úti um allt land og hafa verið lagðar af miklum myndarskap, það hefur bara aldrei verið gert á höfuðborgarsvæðinu að okkar frumkvæði. Nefndir hafa skilað áliti. Það hefur verið bent á mjög álitlega kosti í Hvassahrauni, á Lönguskerjum, á Bessastaðanesi. Ég held þetta sé ekki svo flókið mál. Það voru lagðir tveir eða þrír flugvellir á stríðsárunum af Bandaríkjamönnum á Grænlandi. Það tók þá hálft ár að leggja flugbrautir sem enn þá eru góðar og gildar sem alþjóðaflugvellir. Ef bara er ákveðið að fara í þetta er enginn vandi að klára það í hvelli.