149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég fagna þeirri vinnu sem hann kynnti. Ég velti fyrir mér í því samhengi: Eru áform um einhvern fjárhagslegan hvata til sameiningar sveitarfélaga? Í það minnsta er í fjármálaáætluninni ekki að sjá að lagt sé til hliðar fjármagn í eitthvað slíkt, en það gæti verið áhugavert til viðbótar við skilgreiningu á einhverri svona grunnstærð eða grunnskyldum sveitarfélaga að mögulega sé efldum jöfnunarsjóði með einhverjum hætti beitt til hvata.

En áhugavert væri að heyra hvort því sé til að dreifa.

Er einhver raunveruleg vinna í gangi? Sveitarfélögin hafa kallað eftir hlutdeild í ýmsum öðrum skatttekjum, svo sem virðisaukaskatti, mögulega gistináttagjaldi og öðru slíku, til að njóta m.a. betur góðs af uppbyggingu atvinnulífs á viðkomandi svæðum og sérstaklega þegar horft er til ferðaþjónustunnar. (Forseti hringir.) Því að búseta starfsmanna og staðsetning starfsemi fer ekki alltaf saman.