149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er hins vegar alger óþarfi að ræða málefni Hafró í einhverjum hamfarastíl eins og hv. þingmaður gerir, að það vanti mikið upp á að Hafrannsóknastofnun geti sinnt rannsóknum á sviði miðsjávarfiska eða á hegðun loðnu. Ég vil bara minna á að við höfum sennilega aldrei fyrr lagt jafnmikla fjármuni til loðnurannsókna eins og gert hefur verið í hátt í tvö ár. Sett var inn, ef ég man rétt, 185 millj. kr. fjárveiting sérstaklega merkt loðnurannsóknum. Það kann vel að vera að það muni öllu um þær 15 milljónir sem ber á milli þessarar 200 millj. kr. tölu hv. þingmanns og þeirrar fjárhæðar sem sett var inn í grunninn hjá Hafró til loðnurannsókna. Ég nefni það sömuleiðis að þrátt fyrir að við höfum ekki notið þeirrar gæfu að finna loðnu í veiðanlegu magni höfum við aldrei lagt jafn mikið á okkur til að leita að loðnu eins og við gerðum fyrir þessa vertíð.

Það má alltaf bæta í rannsóknir, það er alveg hárrétt. Ég tek undir það sem kemur fram hjá hv. þingmanni að því leyti til að við höfum ekki, og það er ekki sérstaklega bundið við Ísland eða íslenskar rannsóknir, nægilega mikinn skilning á samspili ólíkra þátta í vistkerfi hafsins. Þar vantar meiri vitneskju, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðavísu. Sem betur fer erum við í ágætu samstarfi við vísindamenn annars staðar en þekkingunni hefur því miður ekki fleygt nægilega mikið fram. Það er kannski grunnástæðan fyrir því að þegar við erum að ræða nýtingu tegunda í lífríkinu í kringum Íslands þá erum við oftast nær fyrst og fremst að meta þetta út frá stofnstærð sérhverrar tegundar frekar en við séum að leggja nægilega rækt við það að skoða samspil þessara ólíku þátta í lífkeðjunni.