149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Bara svo ég svari því strax: Ég hef svarað því til hér úr þessum stóli að ég telji að umræðan um afurðastöðvarnar og samstarf þeirra og annað eigi einfaldlega að fara eftir þeim lagaramma sem Alþingi hefur búið þessari starfsemi, eins og öðrum atvinnugreinum. Það verði fyrst af öllu að láta reyna á þær leiðir sem þar inni eru. Ég tel að þess vegna hafi Alþingi sett þennan lagaramma.

Þegar menn hafa hugmyndir um aðrar leiðir að því komast þeir ekkert fram hjá því að svara þeim sömu grundvallarspurningum og verða settar fram þegar menn eru að leita einhverra leiða til að komast fram hjá ákvæðum samkeppnislaga. Þá verður að svara grundvallarspurningunni: Hvernig á að koma ábatanum af samstarfinu til bænda og neytenda?

Því er Samkeppniseftirlitinu ætlað að svara. Ég tel að það muni geta svarað þeim spurningum betur en þingið.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að stóra málið er að (Forseti hringir.) efla samkeppnina og styðja íslenskan landbúnað í að hafa öfluga stöðu á samkeppnismarkaði. Neytendur munu þá standa með atvinnugreininni fremur en versluninni.