149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Skýringin á þessum 450 millj. kr. „niðurskurði“, sem hv. þingmaður nefnir svo, er af tvennum toga: Annars vegar er um að ræða fjárveitingu til undirbúnings smíði á hafrannsóknaskipi sem flyst einfaldlega á milli ára og hins vegar er 150 millj. kr. framlag sem var ætlað til að flytja Hafrannsóknastofnun í nýtt húsnæði í Hafnarfirði.

Þetta hvort tveggja eru bara einskiptisaðgerðir og hefur ekkert með lengri tíma fjármögnun á hafrannsóknum að gera. Maður tekur ekki t.d. 150 milljónir sem á að greiða fyrir flutning einu sinni og ætlar að flytja aftur á næsta ári og því þarnæsta o.s.frv. Þetta er fyrst og fremst það sem kallað er einsskiptisfjárveitingar sem eru bara að falla niður.