149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Við FH-ingar munum það gjarnan, sérstaklega á kvöldin, umfram Valsmenn. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er rétt, það er ánægjuefni að fiskeldi á Austfjörðum sé byrjað að stíga þessi skref. Ég velti því fyrir mér í tengslum við Hafrannsóknastofnun enn og aftur, sem er stofnun hafs og vatna, hvort efla þurfi Hafró enn frekar á sviði fiskeldismála, sérstaklega í þeim uppbyggingarfasa sem við stöndum nú frammi fyrir varðandi fiskeldi.

Við verðum að fara varlega varðandi uppbygginguna. Við verðum að hlusta á þær viðvörunarraddir sem við heyrðum í ferð okkar í atvinnuveganefnd til Noregs, og læra af því sem Norðmenn gerðu. Við ætlum að byggja upp fiskeldi. Það er ekki spurning. En ég ítreka að verðmætin fyrir afurðir okkar felast í ríkum kröfum til umhverfisverndar og umgengni við náttúruna. Þannig fáum við aukin verðmæti umfram Norðmenn, Færeyinga og aðrar fiskeldisþjóðir. Í því felast miklir hagsmunir fyrir okkur sem viljum passa upp á umhverfið en líka fyrir greinina sem slíka og ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur metnað til þess að standa vel að málum.