149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Fyrst varðandi leyfisveitingaferli og málsmeðferð. Á síðu 298 er sérstök aðgerð sem er einföldun leyfisveitingaferla vegna framkvæmda og sérstök yfirferð á regluverki vindorku sömuleiðis. Þetta er í samstarfi við umhverfisráðuneytið og er liður í því að reyna að mjaka þessu áfram.

Hvað varðar flugþróunarsjóðinn þá er engin stefnubreyting þar á. Það að þetta hafi verið tímabundið verkefni þýðir ekki að nú séu engir fjármunir í sjóðnum lengur og við séum hætt með hann heldur hafa fjármunirnir úr sjóðnum einfaldlega ekki allir gengið út, því miður. Það hefði verið gott ef meira hefði verið sótt í sjóðinn. Flugþróunarsjóður mun starfa áfram. Við færum fjármuni milli ára og það er ekki á minni dagskrá að hann líði undir lok og hverfi. Það er þá frekar að við grípum til ráðstafana ef við verðum svo heppin að það verði meiri þörf en sú sem við gerum ráð fyrir núna.