149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna fyrr í umræðunni. Ég þakka honum líka fyrir skelegga málsvörn fyrir öfluga utanríkisþjónustu. Ég er honum hjartanlega sammála um að við þurfum svo sannarlega á því að halda að hafa öfluga utanríkisþjónustu.

Ég verð sömuleiðis að taka undir með hæstv. ráðherra um EES-samninginn og þær áherslur sem hann leggur á að sinna þeim samningi vel. Við erum svo heppnir, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að vera sammála um að EES-samningurinn er mikilvægasti milliríkjasamningur sem Ísland á aðild að. Það þarf bæði að verja hann og nýta hann. Þar förum við hæstv. utanríkisráðherra alveg samferða.

Þessi samningur hefur haft og hefur gríðarlega mikil áhrif á Íslandi, á samfélagið allt. Þess vegna vil ég ítreka að ég er mjög ánægður með þetta. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að erfitt verði að einhverju marki að sinna þeim mikla metnaði sem ráðherrann hefur í þeim efnum á fullnægjandi hátt miðað við það fjármagn sem sett er í málaflokkinn. Þetta er mikið starf.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort hann (Forseti hringir.) telji sig örugglega hafa nægt fé til að geta sinnt þeim mikilvæga samningi sem skyldi.