149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur skapast í kringum þetta frumvarp og kannski almennt um loftslagsmálin ekki síður. Það er mjög ánægjulegt og gaman að taka þátt í slíkri umræðu á hinu háa Alþingi einu sinni í viku. Ætli það ætti ekki að vera að lágmarki? Spurning um að setja það í þingskapalög. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Aðeins til að reyna að bregðast við athugasemdum frá einstaka hv. þingmönnum, ég vil byrja á hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur: Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi varðandi atvinnulífið og vil nefna það, eins og fram kom við sérstaka umræðu hér í síðustu viku, að við í ríkisstjórninni höfum verið að vinna að mótun samráðsvettvangs með atvinnulífinu, einmitt til að vinna að þessum málum og þá ekki síst að reyna að hvetja til þess að fyrirtækin fari með stjórnvöldum út í metnaðarfullar áætlanir um kolefnishlutleysi árið 2040. Ég er reyndar að skoða það í ráðuneytinu hvernig við getum unnið með kolefnishlutleysismarkmiðið sérstaklega. Bæði er það eitt af verkefnunum sem ég fól loftslagsráði að gefa okkur leiðbeiningar um hvernig best sé að vinna slíka áætlun um kolefnishlutleysi. En ég tel að það sé ekki síður mikilvægt að reyna að fá hina mismunandi geira samfélagsins með okkur í að vinna slíkar áætlanir fyrir hvern og einn geira þannig að við fáum heildstæða nálgun á þetta mikilvæga markmið sem fyrst.

Varðandi skipunina í loftslagsráðið var það í reynd ákvörðun þess sem hér stendur þegar skipað var í það fyrsta sinni. Þá var það gert á grundvelli þingsályktunartillögu sem þáverandi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fékk samþykkta hér á þingi. Ég ákvað að fara þá leið að útvíkka aðkomu að ráðinu. Það var meira gírað inn á akademíuna og stofnanir, en ég vildi taka atvinnulífið þar meira inn, taka nýsköpunarvinkilinn o.fl. Úr varð nokkuð stórt ráð ef ég man rétt, 10–12 manns, því að slíku fylgja kostir og gallar eins og við þekkjum, en þannig var þetta. Þegar við fórum að vinna frumvarpið var það álit ráðuneytisins, en líka eftir að hafa borið það undir formann loftslagsráðs, að nauðsynlegt væri að halda ákveðnu svigrúmi en nefna ákveðna lykilaðila, sem eru þá fulltrúar atvinnulífs, háskólasamfélags, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka.

Þetta er eitthvað sem við gætum skeggrætt fram og til baka og sjálfsagt mun nefndin taka á þessu atriði, hvort það sé betra að nefna sem flesta eða gefa svigrúm eins og við gerum ráð fyrir hér. Það er nokkuð sem ég veit að nefndin mun skoða og við sjáum til hvað kemur út úr því. Varðandi sveitarfélögin sérstaklega gerum við hér ráð fyrir aðkomu fulltrúa sveitarfélaganna inn í verkefnisstjórn við gerð áætlunar um mótvægisaðgerðir. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Þetta var atriði sem þau bentu á í umsagnarferlinu og við tókum undir. Ég vil líka nefna það að í fyrra setti ég af stað vinnu Skipulagsstofnunar, nokkurs konar viðauka við landsskipulagsstefnu, þar sem eru þrjú megináhersluatriði og eitt þeirra er loftslagsmálin, enda gríðarlega mikilvægt að inn í allt skipulag sé fléttað hver áhrif skipulags eru á loftslagsmál. Má þar nefna orkuskipti í samgöngum. Við gætum nefnt endurheimt votlendis eða annarra landgæða og síðast en ekki síst aðlögunina sem hér hefur verið nefnd af allmörgum — og vonandi næ ég að fjalla um það allt í einu. Ég tek undir með hv. þingmönnum um hversu mikilvægt það er að vinna áætlun um slíkt en við verðum líka að átta okkur á því að í dag eigum við enga slíka áætlun. Einhvers staðar verður maður að byrja. Ég ákvað þess vegna að fela loftslagsráði á sínum tíma að koma með einhvers konar leiðbeiningar um hvernig best væri að gera slíkt, líka til að auka aðkomu sem flestra að því hvernig eigi að vinna það, því að í loftslagsráði eru mjög margir aðilar og ólíkir. Það kæmi síðan inn til stjórnvalda og á grundvelli slíks tel ég að við séum að stíga fyrsta skrefið í átt að því að svara mörgum af þessum spurningum og þeim áhyggjum sem ég heyri þingmenn nefna hér, þar með talið afleiðingar, eftirlit og þar fram eftir götunum. Það eru allt þættir sem þarf að huga að varðandi slíka áætlanagerð.

Ég tel mikilvægt að stjórnvöld vinni þessar áætlanir, en loftslagsráðið hafi það hlutverk að rýna slíka áætlanagerð hins opinbera. Það á ekki að fela loftslagsráðinu að vinna þessa áætlanagerð heldur að vera frekar með aðhaldshlutverkið. Ég held að það sé fyrirkomulag sem sé skynsamlegt. Við eigum ágætisefnivið úr síðustu vísindaskýrslu sem Veðurstofan ritstýrði, ágætan efnivið í að hefja þessa vinnu. En ég vonast til þess að nú á vormánuðum fáum við tillögu loftslagsráðs um hvernig best sé að halda utan um þetta og í framhaldinu förum við í þá vinnu.

Við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson höfum oft áður rætt þetta með aðgerðaáætlunina, kostnað hverrar og einnar aðgerðar og árangur. Ég held að ég verði að lofa þingmanninum að koma með þetta allt saman til hans þegar ég mögulega get, en vil þó nefna að sumar af þessum aðgerðum fela ekki í sér neinn beinan kostnað — beinn eða ekki beinn, segir maður þá, verður Ragnar Reykás — t.d. reglugerðarbreytingar og ýmislegt sem við höfum þegar lokið. Það er ekki kostnaður sem við förum að taka af því fjármagni sem ætlað er í loftslagsmálin, heldur er í þeim störfum sem unnin eru í ráðuneytum hverju sinni og þar fram eftir götunum. Síðan þarf að skoða sumar af þessum aðgerðum saman. Það er eiginlega ekki hægt að skoða þær hverja og eina og kannski sérstaklega þegar horft er til orkuskiptanna þar sem þær haldast í hendur, stjórnvaldsaðgerðir á sviði ívilnana eða skattbreytinga og svo aðgerðir til að byggja upp innviði. Þannig að það verður aðeins flóknara þegar litið er til þess.

Varðandi fjármögnunina og það að byrja að fjármagna aðgerðir sem við vitum ekki hundrað prósent hverju muni skila — já, það má vel vera að það sé gagnrýnivert, en ég held að væri auðveldara og hægt að gagnrýna það meira ef við myndum ekki koma fjármagninu í vinnu þar sem við vitum náttúrlega nú þegar hvaða meginaðgerðir eru líklegastar til að skila mestu. Það er á sviði orkuskipta og það er á sviði kolefnisbindingar. Það er ekki eitthvað sem er úr lausu lofti gripið, heldur byggir m.a. á IPCC-skýrslunni frá því í október sem talar einmitt um aðgerðir á þessu sviði sem þær sem miklu máli skipta.

Í framhaldi af því að fjármagna í réttri röð — ég tel okkur einmitt vera að því með því að setja fjármagn í orkuskiptin og í kolefnisbindinguna, og horfa síðan meira til framtíðar og setja fjármagn í nýsköpun og fræðslu. Ég nefni síðan sérstaklega nýjan þátt sem er í nýrri fjármálaáætlun, sem lýtur að hinu svokallaða hringrásarhagkerfi. Þar eru mikil samlegðaráhrif á milli aðgerða sem snúa að úrgangsmálum og neyslu við loftslagsmálin. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá mörgum þingmönnum að æskilegt væri að ræða loftslagsmálin oftar á Alþingi, að sú áætlanagerð og eftirfylgni við þær áætlanir sem festar eru í sessi með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, er efniviður fyrir frekari umræða á Alþingi. Þegar ég segi efniviður erum við með meira í höndunum, ákveðnar áætlanir og skýrslur sem auðveldara er að hafa til grundvallar slíkri umræðu þannig að ég tel að það sé alla vega mjög jákvætt.

Það er spurning: Bregðumst við of hægt við? Þetta er milljóndollaraspurningin, má kannski segja, sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir lagði fram. Ýmsir hópar eru skipaðir. Mörgum líður eins og meira sé gert af því en minna af því að klæða sig í stígvélin og ganga til verka. En ég álít að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hafi farið í stígvélin og tekið á málum af festu, skipulega og í takti við alþjóðasamfélagið. Kröfurnar hafa á sama tíma aukist mjög mikið, sem betur fer. Aðhald samfélagsins er mjög jákvætt.

Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir nefndi kostnað fyrir stofnanir vegna loftslagsstefnu. Eins og ég nefndi í andsvari áðan er gert ráð fyrir þessu hjá Umhverfisstofnun. Ég vil líka benda á þann sparnað sem felst í hagræðingu stofnana með því að ráðast í áætlanagerð á sviði loftslagsmála. Það getur verið hagræðing, ekki bara fjárhagsleg heldur líka á tíma fólks, t.d. þegar reynt verður að draga úr ferðalögum og reynt að nýta fjarfundabúnað. Það verðmætasta sem sparast er tími fólks, ég held að það sé líka nokkuð sem við þurfum að horfa til.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi börn og ungmenni sem kalla á breytingar. Það er afskaplega jákvætt að sjá það gerast í samfélagi okkar úti um allan heim. Ég lít svo á að hér sé verið að bregðast við. Frumvarpið sem hér er lagt fram er lítið brot af því sem er að gerast í loftslagsmálum og við fórum ágætlega yfir það í sérstakri umræðu í síðustu viku. Ég læt þetta nægja og vona að ég hafi náð að svara sem flestum þeim spurningum sem komu fram áðan.