149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Saga vegagerðar og endurbóta á Vestfjarðavegi 60, um sunnanverða Vestfirði, er löng og ströng. Ekki er ástæða til að rekja hana hér í smáatriðum heldur aðeins tæpa á því að nýjustu vendingar í því langa undirbúningsferli eru að nú í haust lagði sveitarstjórn Reykhólahrepps í heilmikla vinnu við gerð undirbúnings aðalskipulags, um breytingu á því. Ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem sveitarstjórnin lagði í síðastliðið haust. Meðal annars voru haldnir tveir íbúafundir, þar sem þessi mál voru rædd, og voru þeir vel sóttir. Þar var flutt skilmerkilegt erindi frá Skipulagsstofnun um mögulega tímalínu í því verki þegar ákvörðun sveitarstjórnar lægi fyrir. Þann 22. janúar sl. samþykkti sveitarstjórn Reykhólahrepps síðan tillögu að aðalskipulagi sem send var Skipulagsstofnun til meðferðar. Nú hefur komið í ljós að afgreiðsla á því erindi tefst eitthvað.

Þessi framkvæmd hefur um langan tíma verið fullfjármögnuð í samgönguáætlun og er það nú. Það er mikilvægt að við eyðum sem fyrst óvissu um framtíð eða tímasetningar þessarar framkvæmdar. Það var ánægjulegt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, á ferð sinni um Vestfirði síðastliðna helgi, hélt sérstakan þingflokksfund í Teigsskógi og heimilaði mér að leggja hér fyrir þingið að nýju frumvarp um lagasetningu um veglagningu um Teigsskóg, eða Vestfjarðaveg 60, sem ég hafði áður látið leggja fram ásamt þingmönnum Norðvesturkjördæmis. Erindi mitt hér í ræðustólinn í dag er einungis að afla því máli fylgis.

Ég vona að við getum staðið saman að því að höggva á þennan hnút. Ég tel að Alþingi Íslendinga skuldi íbúum á Vestfjörðum að sem fyrst verði hoggið á þennan hnút og þrætuna um þessa veglagningu.