149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er sú sem hér stendur ekki löglærð, það er hins vegar hv. þingmaður sem kom hér í andsvar. Í ræðu minni áðan vitnað ég í hæstaréttardóm og ég vil, frú forseti, fá að lesa aftur það sem þar stendur. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að það sé staðfesting á því sem ég sagði hér áðan en ekki því sem hv. þingmaður sagði.

Þessi málsgrein úr hæstaréttardómnum frá því í mars 2017 er svona, með leyfi forseta:

„Jafnframt er því slegið föstu í síðari dóminum að löggjafinn getur ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og þeim eftir atvikum endurúthlutað, svo og kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun nytjastofnanna.“

Þetta er niðurstaða úr hæstaréttardómi. Þetta stendur skýrum stöfum og ekki nokkur lífsins leið að misskilja.

Hv. þingmaður talar um að veiðigjaldið sé hátt en ég vil þá óska eftir skýringu á því frá hæstv. ráðherra, og mér finnst eðlilegt að við stjórnmálamenn spyrjum: Hvernig stendur á því að útgerðin í Færeyjum vill bjóða 89,9 kr. fyrir kíló af makríl? Annað útboð er reyndar hjá þeim í næstu viku þannig að það má vera að annað verð komi þá, en það sem útgerðarmenn í Færeyjum eru tilbúnir til að bjóða í makrílkvótann er 2.400% hærra en það sem okkar útgerðarmenn þurfa að borga. Þarna er munur sem þarf að skýra.

Aðeins í lokin, frú forseti: Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna Sjálfstæðismenn treysta ekki á markaðinn þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni en tala mikið um hann þegar önnur gæði eru annars vegar.