149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

bætt umhverfi menntakerfisins.

325. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Þetta svar, alla vega fyrri parturinn, hugleiðingarnar, veitir ástæðu til þess að fara fram á sérstaka umræðu við hæstv. ráðherra um kennara, kennaraumhverfið, um kennaranámið og hvert við erum að halda. Þetta voru fínar hugleiðingar en það sem skiptir máli er að fá svör við spurningum eins og hvernig við eflum alþjóðaskólana og alþjóðadeildirnar. Hluti af því er að sjálfsögðu starfsumhverfi kennara, hvernig við gerum það aðlaðandi að starfa bæði í hinum almenna grunnskóla, framhaldsskóla og innan alþjóðadeildanna.

Mér fannst mjög fróðlegt að heyra um Landakotsskóla og mundi gjarnan vilja fá að heyra aðeins meira hvað hann varðar, um hvaða hug ráðherra beri sjálfur til þess að lengja námið þar. Sá skóli, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, er að sækja um að halda áfram með námið eftir að grunnskóla lýkur — hvernig hugnast ráðherra að fara kannski svipaða leið varðandi grunn- og framhaldsskóla og farin er í Krikaskóla upp í Mosó, þar sem skólinn er, að mig minnir, frá tveggja til tíu ára aldurs og skólastigin skarast — leik- og grunnskóli, grunn- og framhaldsskóli? Hvað er í þróun þar? Ég held að það geti verið hjálplegt, m.a. í tengslum við alþjóðadeildir eða -skóla.

Ég vil því líka spyrja hæstv. ráðherra, á grunni þess svars sem hún gaf hér áðan — það er gott að fara yfir stöðuna eins og hún er núna: Sér ráðherra einhver önnur úrræði í pípunum til að efla alþjóðadeildirnar og alþjóðaskólana? Er eitthvert samráð eins og t.d. við Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, við þessi samtök sem gæta hagsmuna fyrirtækjanna? Því það er þeirra að bera ábyrgð á því hvernig við getum laðað að erlenda (Forseti hringir.) sérfræðinga, tímabundið eða ótímabundið.