149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Er hæstv. ráðherra virkilega að segja okkur að hann leggi allan EES-samninginn undir í málinu? Það sem ég átti við var vitaskuld að ekki verður aftur snúið nema þá með þeim afleiðingum að við færum út úr þessu evrópska samstarfi. En heldur ráðherra því virkilega fram að við leggjum allan samninginn undir?

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er eilítið undrandi á málflutningi hæstv. ráðherra. Ég er bara með einfalda spurningu. Hún gæti ekki verið einfaldari. Hin leiðin, sem lögð er til eftir einhver samskipti á milli ráðuneytisins og hinna ágætu fræðimanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, kemur á óvart og kallar á skýringar. Hún kallar á skýringar á því hvernig hinn lagalegi fyrirvari leysir okkur undan (Forseti hringir.) ótvíræðri þjóðréttarlegri skuldbindingu. Getur ráðherra ekki svarað þeirri einföldu spurningu?