149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, eflaust hefur það ekki verið rangt. Ég var ekki á þingi þá og heyrði svo sem ekki röksemdirnar, en ég gat eitthvað fylgst með þeim. Það er langt um liðið. Nú er spurningin: Ef fyrsti og annar orkupakki kæmu til álita núna, værum við þá öll á móti þeim? Ég er ekkert svo viss um það. En gott og vel, sagan er svona.

Um hækkun raforkuverðs um 100% vegna aðskilnaðar yfirbyggingarinnar, þ.e. orkuframleiðslunnar annars vegar og orkuflutningsins hins vegar, get ég ekki sagt nokkurn skapaðan hlut. Þessu er haldið fram og mér finnst það mjög sérkennileg hækkun ef hægt er að tvöfalda verð vegna þess að það er verið að aðskilja flutningskerfi og framleiðslukerfi. En gott og vel, vandræðin sem ég er að tala um eru þau að úttektir sem hafa verið teknar á heildaráhrifum þessa aðskilnaðar hvað snertir rekstraröryggi, hvað snertir áhrif á samráð á milli þess sem selur og framleiðir, sýna að þetta hefur allt verið dæmt tiltölulega jákvætt. Það getur vel verið að raforkuverð hafi hækkað einhvers staðar eða staðið í stað annars staðar, eða jafnvel lækkað annars staðar, vegna þess að það er virk samkeppni. Fjögur, fimm eða sex fyrirtæki eru að selja sem var líka einn tilgangurinn með þessu. Hafi þá verið rangt að gera raforkuna að vöru frammi fyrir Evrópusambandinu höfðu Vinstri græn rétt fyrir sér á sínum tíma. Hafi það gengið þokkalega eftir höfðu Vinstri græn rangt fyrir sér á sínum tíma. Það er ekkert óeðlilegt þegar horft er til baka 10, 15, 20 ár frá því að (Forseti hringir.) búið er að innleiða eitthvað af því sem menn hafa barist á móti eða verið með, að þeir hafi aðra afstöðu. Ég ætla ekki að segja fleira um það.