149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að skýra út fyrir honum hvers vegna raforkuverð á köldum svæðum á Suðurnesjum hækkaði um 100%. Þegar hitaveita var lögð um Suðurnesin var ekki lagt til allra húsa, þ.e. á Vatnsleysuströnd, Grindavík o.s.frv., þar sem ekki var hægt að leggja hitaveitu. Þá var samið við Hitaveitu Suðurnesja um að hún niðurgreiddi sérstaklega raforku til þessara heimila þannig að þau sætu við sama borð og önnur. Þegar orkupakki eitt var innleiddur var fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja bannað að niðurgreiða raforkuna til þessara notenda. Og þar með hækkaði verðið um 100%. Þessi orkupakki gerir að verkum að samfélagslegi þátturinn, félagslegi þátturinn í þessu kerfi, er ekki lengur viðhafður. Nú eru það bara markaðslögmálin sem gilda og þá skulu menn gjöra svo vel að sætta sig við það. Og það er í okkar litla landi óásættanlegt að eitthvert apparat í Evrópu, í Brussel, geti sagt fyrir um að það sé bannað að niðurgreiða rafmagn til húshitunar vegna þess að við búum ekki við heitt vatn og þau lífsgæði sem fylgja hitaveitunni.

Ég segi enn og aftur: Sporin hræða hvað varðar þennan orkupakka. Í mínum huga er það engin spurning að við eigum að hafna honum vegna þess að það mun ekki hafa neinar afleiðingar fyrir okkur hvað varðar Evrópska efnahagssvæðið, við þekkjum það. Þetta er bara hræðsluáróður sem kemur frá stjórnarflokkunum, Viðreisn og Samfylkingu um að allt fari á annan endann ef við segjum nei. Við eigum bara að segja nei vegna þess að hagsmunir okkar allra í þessu landi eru að við búum við ódýra raforku og það sem mun gerast þegar þessi orkupakki verður samþykktur hér er að verð á rafmagni til allra heimila og fyrirtækja í landinu mun hækka. (BjG: Bull!)