149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa mikilli ánægju með að náðst hafi kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Það hefur legið eins og mara á þjóðinni að harðar deilur hafa verið og átök, en verkalýðshreyfingin á hrós skilið fyrir að hafa staðið vörð um réttindi þeirra sem minnst mega sín. Ég vil líka hrósa atvinnurekendum fyrir að sýna því skilning og mæta þeim sem verst eru settir með þeim samningum sem gerðir hafa verið með aðkomu ríkisvaldsins sem kom að þessum samningum sem aldrei fyrr.

Það hefur aldrei verið lagt svo mikið fjármagn í að liðka fyrir kjarasamningum eins og gert hefur verið núna, sem mun nýtast þeim sem koma á eftir líka. Það eru 80 milljarðar í heild sem ríkið leggur til til að byggja hér upp öflugt velferðarkerfi og mæta ýmsu sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir, og það liðkar fyrir þeim kjarasamningum sem svo sannarlega eru lífskjarasamningar. Það skiptir máli. Í þessum þingsal er oft talað um það sem miður fer en minna kannski um það sem vel er gert.

Það er vel gert af öllum þeim sem hafa staðið í stafni fyrir að ná saman og lenda þessum stóru, miklu og erfiðu samningum.

Þá spyrja menn: En hvað með aðrar stéttir sem á eftir koma? Opinberir starfsmenn eiga eftir að semja, þeir eiga að sjálfsögðu sinn samningsrétt. Það tekur hann enginn frá þeim og við skulum vona að þeim gangi jafn vel að lenda sínum samningum miðað við kaup þeirra og kjör eins og tókst til í þessum samningum hér.

Þá er líka minnst á aldraða og öryrkja. Við vitum að fyrir liggur á næsta leiti að koma með frumvarp sem beinist að öryrkjum. Við þurfum að mæta því, því að fjármagn er ætlað til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja og við þurfum að koma því fjármagni í vinnu.