149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér verður eiginlega orða vant þegar því er haldið fram hér í ræðustól Alþingis að stór hluti núverandi þingmanna, og væntanlega líka fyrrverandi þingmanna, berjist fyrir einhverju öðru en hagsmunum Íslendinga. Hvert er hv. þingmaður að fara með þessu?

Ég spyr á móti: Fyrir hvaða hagsmunum talar hv. þingmaður? Hér erum við með mál sem hefur í raun verið til umfjöllunar hjá Alþingi Íslendinga frá árinu 2010. Það hefur verið tekið fyrir í alla vega þremur þingnefndum og það oftar en einu sinni. Við erum búin að vera með stjórnsýslu þessara ráðuneyta undir, allir okkar helstu sérfræðingar hafa fjalla um málið. Og hvað heldur hv. þingmaður að fólk sé að gera annað en að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga? Ekkert annað.

Svo langar mig að minna hv. þingmann á að við erum hér í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu. Þannig að ef hv. þingmenn trúa ekki eða treysta ekki þeim umsögnum, þeim ákvæðum sem þegar hafa komið fram (Forseti hringir.) um þetta ágæta mál, er full ástæða til þess að hv. þingmenn spyrji þessara spurninga þegar málið kemur inn í nefnd. Það er einmitt til þess (Forseti hringir.) sem þingleg meðferð er ætluð.