149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég heyri það greinilega á honum að hann vill ræða þetta mál vítt og breitt og þá ætla ég að nota tækifærið og koma aðeins inn á það sem hann nefndi varðandi sæstrenginn. Hann hefur ekki neinar áhyggjur af því að hér verði lagður sæstrengur á næstunni. Við eigum svo sem eftir að sjá hvernig þau mál þróast.

Hér eru stjórnvöld að setja fyrirvara, lagalegan fyrirvara, sem kveður á um að það verði ekki lagður hér sæstrengur nema með leyfi stjórnvalda. Þá vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi fyrirvari verði dæmdur ólöglegur, alveg eins og gerðist í svokölluðu kjötmáli eða frystiskyldumálinu, ef við getum orðað það þannig, og ég hef rakið aðeins í dag. Þar héldu stjórnvöld að þau væru búin að tryggja sig gegn því að hér kæmi inn hrátt kjöt sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkar hreina landbúnað. Þá kemur í ljós að það er ákvæði í matvælalöggjöfinni og um dýrasjúkdóma, sem dæmt er ólöglegt. Hér er sambærilegt mál hvað þetta varðar. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því hvort sá fyrirvari sem er verið að setja komi til með að standast? Það er alveg opið í þessu máli að við verðum einfaldlega bara kærð og málið fari þá kæruleið og í framhaldinu getur hugsanlega verið að þessi varnagli verði dæmdur ólögmætur og þá erum við algjörlega berskjölduð. Er það ekki rétt hjá mér, hv. þingmaður?