149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

[11:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni sem varðar samningsstöðu Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ég spyr sérstaklega um þá stöðu núna vegna þess að fyrir nokkrum dögum ályktaði aðalfundur samtakanna þar sem skorað var á heilbrigðisráðherra að hlutast til um að nú þegar yrði settur fullur kraftur í samningaviðræðurnar milli Sjúkratrygginga og öldrunarstofnana um endurnýjaðan rammasamning við heimilin. Þessi samningur, sem tók gildi árið 2016, rann út um síðustu áramót.

Það hefur ekki náðst saman í samningaviðræðum. Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem eru fyrirtæki sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en hafa eðli málsins vegna lítinn áhuga á því að skila tapi, setja fram í kröfugerð um að greitt sé fyrir þjónustuna sanngjarnt, eðlilegt og gagnsætt verð og vilja skýra og kostnaðargreinda kröfulýsingu. Samtökin vilja jafnframt gjarnan að þetta sé unnið af þriðja aðila og lýsa yfir megnri óánægju með stefnu hins opinbera í þessum málum. Faglegt eftirlit með starfsemi þessara fyrirtækja og stofnana er hjá landlæknisembættinu sem setur fram kröfulýsingar sem engan veginn rúmast innan fjárhagsrammans sem í boði er.

Mig langar til þess að spyrja ráðherra um stöðuna, um hvaða plan sé í gangi og jafnframt að gefnu tilefni hvernig og hvenær ætlunin er að uppfylla það sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að hugað verði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila. Á þeim tveimur fjárlagaárum sem núverandi ríkisstjórn hefur setið við stjórnvölinn hefur rekstrargrunnurinn verið skertur í stað þess að styrkja hann. Það eru engin teikn á lofti sé litið í fjármálaáætlun um að styrkja hann á næstunni. Það er enginn samningur, aðgerðirnar ganga þvert gegn loforðum og óvissa er fram undan. Stórt er spurt, en svarið er mikilvægt.