149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

áhrif kjarasamninga á tekjur öryrkja og eldri borgara.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að ræða hér kjör öryrkja. Í fyrsta lagi er tekin ákvörðun um vísitöluhækkun örorkulauna í fjárlögum hvers árs og þar hefur stundum verið miðað við neysluvísitölu. Stundum hefur verið miðað við neysluvísitölu plús einhver önnur viðmið, þannig að það er ekki alveg einhlítt hvernig sú ákvörðun hefur verið tekin.

Síðan er það svo, eins og hv. þingmaður þekkir og við höfum rætt allnokkrum sinnum hér í þessum stól, að stjórnvöld hafa eyrnamerkt sérstaka fjármuni í kjarabætur handa örorkulífeyrisþegum. Ég verð að viðurkenna varðandi þann hóp sem hv. þingmaður situr í ásamt fleiri hv. þingmönnum og fulltrúum Öryrkjabandalagsins, verkalýðshreyfingarinnar, Þroskahjálpar, atvinnulífs og ráðuneytis að ég er orðin langeyg eftir niðurstöðum og tillögum frá honum. Nú er mér sagt að fundur hafi verið boðaður þar 7. maí, vonandi til að skila þeim tillögum sem þar hafa verið til umræðu, því að jafnvel þótt aðilar þess hóps komi sér ekki saman um endanlegar tillögur held ég að það sé mjög mikilvægt að við fáum þær í hendur til að taka til umræðu á þessum vettvangi.

Hér er búið að eyrnamerkja á þessu ári 2,9 milljarða í kjarabætur handa öryrkjum. Það er ýmislegt hægt að gera við slíka fjármuni, hvort sem er til að draga úr vægi krónu á móti krónu skerðingar, horfa á framfærsluna eða auka hlutfall sveigjanlegra starfa handa öryrkjum. Ég vonast svo sannarlega til þess að við fáum að sjá það sem þessi hópur hefur verið að vinna með og að hægt verði að taka ákvarðanir sem þjóna því markmiði að gera jákvæðar breytingar til framtíðar til að bæta kjör öryrkja.