149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir ágæta ræðu. Í henni kristallast kannski áhyggjur flestra sem hafa áhyggjur af þessu frumvarpi og það hefur að gera með tímalengdina, vikufjöldann. Einmitt á þessum forsendum langar mig að ræða við hv. þingmann og þá sérstaklega það sem hann nefndi undir lok ræðu sinnar sem sneri að spennunni á milli tímamarkanna og þessa frumvarps og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og farið er inn á í greinargerð Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Það vill svo til að ég er ósammála Siðfræðistofnun um akkúrat þetta atriði. Ástæðan fyrir því að ég er ósammála er m.a. skoðun sérstakrar nefndar Sameinuðu þjóðanna um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur einmitt gagnrýnt löggjöf ríkja sem hafa sérstakt undanþáguákvæði í sínum lögum sem heimila þungunarrof eftir ákveðinn tímaramma á grundvelli fötlunar. Þannig er lagaramminn okkar í dag.

Þar sem talað er um að verið sé að víkka út þennan tímaramma þá vil ég setja það í smásamhengi fyrir hv. þingmann við það hvernig lögin eru núna. Þar er heimilt að framkvæma þungunarrof eftir 16. viku, í 10. gr. núgildandi laga, með leyfi forseta:

„Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.“

Svona er staðan í dag. Það er hægt að framkvæma þungunarrof á þeim grundvelli að fóstur sé líklegt til að vera fatlað. Þarna finnst mér vera spenna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Mig langar að heyra hvað hv. þingmanni finnst um að það sé sérstakt ákvæði í lögum okkar sem veitir undanþágur frá hinni almennu reglu á grundvelli þess að fóstur sé líklegt til að verða fatlað, hvort þar liggi ekki frekar spennan.