149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Niðurstaða meiri hluta hv. velferðarnefndar er rétt. Hún er rétt þótt hún kunni að vera erfið. Hún er rétt vegna þess að við erum hér að fjalla um lög sem þurfa að taka til og setja ramma utan um öll möguleg dæmi og atvik sem upp geta komið og orðið þess valdandi að kona íhugar þungunarrof. Við erum hér ekki að svara spurningum um hvort við eða okkar nánasta fólk fer eða fór í þungunarrof í þeim aðstæðum sem eru eða þá voru uppi.

Ég skil og ber virðingu fyrir því að fólk vilji ekki gangast undir slíkar aðgerðir og vilji helst ekki að aðrir geri það heldur, en við hér getum aldrei samið lög utan um hvorki þau fallegu atvik sem ekki ættu að leiða til þungunarrofs né þau erfiðu, ljótu eða vondu atvik sem ættu að veita svigrúm til slíks. Þeir sem þekkja þessi mál hvað best, kven- og fæðingarlæknar, ljósmæður og félagsfræðingar, fólkið sem þekkir dæmin, þekkir lífvænleika fósturs, fólkið sem hingað til hefur þurft að mæta einstaklingum á sínum erfiðustu tímabilum, kallar eftir breytingum á þessum lögum og það fólk lagði til 22 vikurnar (Forseti hringir.) sem hér eru mest umdeildar.

Ég þakka hv. nefnd og öllum þeim sem sendu inn umsagnir um þetta viðkvæma og erfiða mál.