149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls.

[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Þetta mál er þannig vaxið að það skiptir verulegu máli fyrir okkur að við náum utan um það með þeim hætti sem fram kemur í drögum að niðurstöðum starfshópsins. Þar er til að mynda lagt til að hin stafræna endurgerð verði unnin á sex árum með þremur vinnustöðvum á tveimur stöðum á landinu. Miðað er við að áætlaðar greiðslur vegna afnota af höfundarétti aukist jafnt yfir vinnslutímann og gæti kostnaður verkefnisins orðið um 600 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður síðan rúmlega 41 millj. kr. Ljóst er að þetta er fjárfesting en þetta er mjög góð fjárfesting vegna þess að ég tel að við getum nýtt hana í máltækniverkefninu í framtíðinni.

Ég er svo sannarlega reiðubúin að skoða leiðir til að fjármagna verkefnið og hefja vinnu við það enda framfaramál fyrir íslenskan menningararf. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja málið á dagskrá og þinginu fyrir að samþykkja það samhljóða.