149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[17:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi sem mér finnast vera athyglisverð, að Þingvallanefnd geri samninga, Þingvallanefnd setji og móti atvinnustefnu og Þingvallanefnd setji reglugerð. Þar sem þetta er þingmannanefnd sinnir hún óvenjulega stjórnsýslulegu hlutverki. Ég held að það sé réttara, eins og var talað um í ræðu hv. flutningsmanns, þegar kemur að samræmingarhlutverkinu, að við færum meira í það og gerðum þetta að framkvæmdarvaldsmáli í staðinn fyrir að blanda einhverri þingmannanefnd inn í málið sem stunda á eftirlit.

Mér þætti athyglisvert ef þingnefnd, t.d. umhverfis- og samgöngunefnd, myndi kalla Þingvallanefnd inn til skrafs vegna eftirlitshlutverks síns. Þá þurfa þó nokkrir nefndarmenn umhverfis- og samgöngunefndar að skipta um sæti og mæta sem gestir. Það stangast dálítið á við eftirlitshlutverk þingsins þegar það sinnir eftirliti með framkvæmdarsýslulegum atriðum, eins og kemur fram í frumvarpinu. Væri ekki réttara skref, ef fara á í einhverja samræmingu, að afnema Þingvallanefnd og setja hana í hendur ráðherra til þess að hún sé á meira viðeigandi stað, samræmingarlega séð?