149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:51]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágæt en gamalkunnug umræða hér í salnum. Eins og fram hefur komið hafa sambærileg mál verið lögð nokkrum sinnum fram áður. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi áðan að áfengisumræða út frá mismunandi hliðum á sér áratugagamla sögu þess fyrir utan.

Nú erum við að fjalla um frjálsa sölu á áfengi í sérstökum smávöruverslunum. Mig langar til að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur hvort og þá hvað hún telji vera nýtt í þessu máli eins og það er lagt fram núna og hvort það sé þá til einhverra bóta frá því sem áður var. Ég veit að hv. þingmaður þekkir áður fram komin mál sem hlutu mjög ítarlega umræðu í þingsal á sínum tíma. Sum mál eru þess eðlis að þau þurfa tíma til að þroskast í Alþingi og það er þó til bóta. Markmið lagasetningar á að vera almannaheill fyrst og fremst og greiða kannski úr ákveðnum óvissuþáttum hvað varðar lagasetningu og slíkt.

Nú erum við með ágætiskerfi varðandi áfengissölu að flestra mati og við erum með ágætisaðgengi, við erum með ágæta þjónustu. Er eitthvað í þessu máli eins og það er lagt fram núna sem yrði til þess að aðgengi yrði betra, að þjónustan við íbúa, þá á ég við um allt land, myndi batna og að mögulega myndi verð á vörunni lækka til neytenda? Og ef við horfum bara á neytendasjónarmiðin, eru einhverjir kostir við málið eins og það er lagt fram núna að mati þingmannsins?