149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að taka undir orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar og vísa þeirri beiðni til forseta að taka það til alvarlegrar skoðunar að fresta umræðu um þetta mál, þótt ekki sé nema um nokkra daga.

Maður veltir fyrir sér: Hvað liggur svona mikið á? Þetta mál er ekkert að hlaupa frá okkur þó að teknir verði einhverjir dagar til eða frá til þess að gefa þeim tíma sem erfiðast eiga með þessa miklu breytingu sem virðist vera að verða hér á lögum, sem snúa að fóstureyðingum eða þungunarrofi, hvort hugtakið sem menn nota.

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur ráðlagt okkur að flýta okkur hægt í þessu máli. Í því samhengi vil ég ítreka og taka undir beiðni hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að við gerum einmitt það og frestum umræðu um nokkra daga.