149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er nú hægt að saka mig um ýmislegt en ég verð seint sakaður um að þora ekki að taka afstöðu til mála. Seint sakaður um það. Ég flutti ræðu við 2. umr. þessa máls þar sem ég lýsti yfir eindregnum stuðningi við allar greinar frumvarpsins nema 4. gr. Ég sat hjá í atkvæðagreiðslu um 4. gr. í þeirri von, í því trausti, að það væri hægt að ná einhvers konar sátt í málinu.

Nú liggur fyrir að tveir þingmenn hafa lagt fram sína breytingartillöguna hvor til að gera tilraun að ná slíkri sátt sem náðist greinilega ekki í velferðarnefnd. Á grundvelli þess, hæstv. forseti, hef ég óskað eftir því að umræðunni verði frestað um nokkra daga. Það er nú ekki annað sem beðið er um. Himinn og jörð munu ekki farast þó að frumvarpið verði afgreitt í komandi viku. (Forseti hringir.) Vegna þess að það mun gerast. Það mun gerast. Þetta er bara fróm ósk, herra forseti, og menn þurfa ekkert að gera minna úr þeirri ósk en öðrum óskum (Forseti hringir.) sem hér eru bornar fram í ræðustól.