149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð bara döpur yfir því að heyra hvernig umræðan er að þróast og að við séum komin það langt aftur varðandi baráttu kvenna, kvenréttindamál, að við séum að tala um að verið sé að lífláta börn þegar þungunarrof er framkvæmt. Ég trúi því ekki að við séum stödd þar, að við séum ekki komin lengra á veg. Ég veit þó að meiri hluti þingheims er komin á annan stað.

Varðandi þetta frumvarp standa mestu deilurnar um hvort miða eigi við 22 vikur, sem er í raun framkvæmdin í dag, en þá taka sérfræðingar lokaákvörðun í þeim efnum. Nú er það sjálfsákvörðunarréttur kvenna að ákveða hvort þær fara í þungunarrof fram að þeim tíma. En auðvitað fá þær konur sem ganga þau þungu skref að ganga í gegnum þungunarrof, því að það er ekki auðvelt neinni konu, alla þá aðstoð og hjálp í gegnum það ferli sem er þarna undir frá sérfræðingum og heilbrigðisstéttinni. Sérfræðingar í heilbrigðisstéttinni ráðleggja að miðað verði við 22 vikur og að við virðum sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Við hljótum að geta stutt það.