149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:33]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar maður er í þeirri stöðu að vera bæði fríverslunarsinni og ekki síst formaður þingmannanefndar EFTA hefur maður ákveðna trú á mikilvægi gerðar fríverslunarsamninga og að það sé að öllu jöfnu til bóta fyrir samfélög að tengjast nánari böndum. Engu að síður þá er ég á minnihlutaáliti því sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir rakti rétt í þessu. Ástæðan er sú að það togast á innra með mér nokkrir aðrir hlutir og ég væri hreinlega ekki samkvæmur sannfæringu minni ef ég myndi styðja þennan fríverslunarsamning að svo stöddu.

Það er að vissu leyti eitthvert tilfinningamál. En ég er ekki hrifinn af því að taka ákvarðanir út frá tilfinningum og því horfi ég svolítið á staðreyndirnar. Svo ég hnykki sérstaklega á tvennu af því sem fram kom í nefndaráliti minni hlutans þá eru í rauninni aðalrökin gegn því að samþykkja þetta á þessum tímapunkti, fyrir utan náttúrulega hrikalegan mannréttindaaðbúnað á Filippseyjum, fyrst og fremst tvenns konar:

Annars vegar er ákveðin trú í allri umræðu um fríverslun að frjálsir markaðir skapi frjálst fólk. Ekki er mikið til af sönnunum á þessari hugsjón. Það virðist aftur á móti frekar vera tilfellið að frjálst fólk geti skapað frjálsa markaði. Þegar samfélag býr við slíka ánauð, eins og staðreyndin er á Filippseyjum í dag og hefur verið undanfarin ár, er ekki hægt að ganga út frá því að fólk geti stundað frjáls viðskipti þann á hátt að það bæti samfélag þess. Þá er rétt að spyrja sig hvort fríverslun við okkur geti bætt samfélag okkar.

Erum við, með því að samþykkja þetta, orðin að gerendum eða alla vega að veita þögult samþykki fyrir þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað? Ég veit það ekki. Það er ákveðin siðferðisleg spurning sem þarf einhvern betur uppfræddan um siðfræði en mig til að svara. Mér finnst alla vega þessi opna spurning blasa við, hvort við getum treyst því að fríverslunarsamningur muni hjálpa á nokkurn hátt. Mér er ekki kunnugt um neinar rannsóknir sem sýnt hafa ótvírætt fram á að aukin viðskipti leiði af sér meira frelsi og færri mannréttindabrot. Mér er kunnugt um að rannsóknir sem hafa sýnt fram á að ákveðnar hreyfingar til styrktar réttarríkisins og lýðræðislegt aðhald hafi ýtt undir áberandi meiri viðskipti.

Þannig að þá verður maður að segja að sú leið sem farin hefur verið á Filippseyjum undanfarin ár undir stjórn Dutertes er í rauninni í þveröfuga átt og dregur úr allri raunsærri trú á að þessi fríverslunarsamningur geti gert eitthvert gagn.

Hins vegar er það hinar áhyggjur mínar. Eins og fram kom í nefndarálitinu er það trúverðugleiki mótaðilans. Í fríverslunarsamningnum segir, með leyfi forseta, að löndin árétti þá skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Þá verður maður að spyrja sig: Ef land, ef ríkisstjórn hefur gefið það út — eða kannski ekki gefið það út með orðum — jú, reyndar hefur Duterte gefið það út nákvæmlega með orðum að hann styðji við fjöldamorð á tilteknu fólki, en líka með gjörðum sínum og öðru. Ef ríki eru búin að sýna fram á að þetta tiltekna ákvæði er einskis virði í þeirra huga og verði ekki fylgt af þeirra hálfu þá getum við ekki gefið okkur að öðrum ákvæðum samningsins verði líka fylgt.

Það hvað Filippseyjar hafa gengið langt í því að draga sig út úr alþjóðasamstarfi, t.d. Alþjóðasakamáladómstólnum, þegar ríkið hefur hlotið gagnrýni fær mann til að halda að ef upp kæmi einhver ágreiningur t.d. við tollafgreiðslu á einhverjum vörum frá Íslandi eða jafnvel ritskoðun á vefsíðum íslenskra fyrirtækja eða hvað eina sem það kann, yrði svar Filippseyja við því í rauninni ekki í anda samningsins. Það má eiginlega frekar ganga út frá því að hegðun stjórnvalda Filippseyja, undir stjórn Dutertes, verði bara í anda þess sem Duterte dettur í hug hverju sinni, vegna þess að það er um það bil það sem við höfum séð frá Filippseyjum undanfarin ár.

Það er kannski rétt að ítreka að krafan er ekki að lönd séu með hreinan skjöld. Krafan er ekki að þau séu fullkomin. Krafan er að þau sýni lágmarksviðleitni til að bæta sig. Við sjáum það t.d. í tilfelli fríverslunarsamnings við Kólumbíu þar sem aðstæður löguðust og litið var til þess í meðferð þingsins að þær voru að batna. Það var bara mjög eðlilegt. Það er kannski ekki alltaf búið að vera þannig, t.d. hafa hlutir snarversnað gagnvart Tyrklandi á undanförnum árum. Það var kannski ekki ástæða til að stoppa gildistöku uppfærðs samnings á sömu forsendum. Það var aðeins matskenndara þar sem samningur var þegar til. En jafnvel þar ætti maður að spyrja sig: Eru hlutir að batna eða versna? Er sýnd lágmarksviðleitni til að viðhalda ákvæði samningsins, sérstaklega hvað varðar mannréttindi?

Hér er svo sem búið að reifa nefndarálit minni hlutans í málinu þannig að ég ætla ekki að tefja þetta neitt mikið meira. Ég held að í þessari umræðu og umræðu um alla fríverslunarsamninga þurfum við að nálgast málin út frá ákveðnu jafnvægi. Annars vegar viljum við auka fríverslun um allan heim. Við viljum gera fleirum kleift að stunda viðskipti og tengjast og kynnast fólki. En við viljum ekki á nokkurn hátt vera meðsek um mannréttindabrot og við viljum ekki gefa einræðisherrum eða fjöldamorðingjum eða öðrum þeim sem eru í mikilli og aggressífri árás gegn mannkyninu, tilefni til að fagna því að þeir hafi hlotið einhvers konar réttlætingu af hálfu okkar. Það er ekki okkar hlutverk. Okkar hlutverk er ekki að réttlæta gjörðir manna eins og Dutertes og pólitísk yfirlýsing af því tagi sem fríverslunarsamningur er og getur verið mun verða túlkuð á þann hátt.

Þannig að ég styð ekki að við samþykkjum þennan samning að svo stöddu. Ég styð hins vegar að um leið og ástandið á Filippseyjum horfir til betri vegar, líklega þegar valdatíð Dutertes er lokið, að við tökum þennan samning aftur upp og samþykkjum hann og kynnumst síðan Filippseyingum af góðu einu, eins og ég hef gert þegar ég hef verið þar í landi. Það er fullt af tækifærum til frekari fríverslunar á Filippseyjum, en ég get ekki sagt að það sé raunhæft að geta notið þeirra tækifæra með góðri samvisku á meðan þessi tiltekni fjöldamorðingi er við völd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)