149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[19:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Sértækir skattar á banka á Íslandi eru með þeim hæstu á meðal landanna sem við berum okkur gjarnan saman við. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, auk þess sem almenningur hefur búið við óhagstæðari vexti en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.

Frumvarp þetta hefur að geyma tillögu að breytingum á framangreindum lögum er varða lækkun á gjaldhlutfalli í fjórum þrepum á árunum 2020–2023 í samræmi við síðustu þrjár fjármálaáætlanir ríkisstjórnarinnar. Það er nefnilega þannig að í síðustu þremur áætlunum höfum við gert ráð fyrir að þessi skattur myndi lækka í þrepum á þessu tímabili. Hér er verið að koma fram með frumvarpið að vori til á árinu 2019 til að lögfesta það þó fram í tímann. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum mun endurskoðunin skila sér í lægra gjaldhlutfalli svo að það verði framvegis 0,145%, frá árinu 2023, en gjaldhlutfallið stendur í dag í 0,376%. Það lækkar sem sagt í áföngum á tímabilinu 2020–2023.

Með frumvarpinu er komið til móts við gagnrýni ýmissa aðila. Það fylgir sömuleiðis ábendingum sem komu fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið þar sem lögð er áhersla á að lækkun sértækra skatta á fjármálakerfið sé skýrasta tækifæri ríkisins til að draga úr vaxtamun. Gera má ráð fyrir að lækkun bankaskatts veiti fjármálafyrirtækjunum svigrúm til að lækka útlánsvexti og/eða hækka innlánsvexti til viðskiptavina en sú breyting myndi bæta afkomu heimila og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu lækka skatttekjur ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið á árunum 2020–2023 um 1,6 milljarða kr. til að byrja með á tekjuárinu 2020 en síðan skref fyrir skref allt upp í 7,75 milljarða kr. á tekjuárinu 2023. Með vísan í þær tölur má ætla að svigrúm fjármálafyrirtækja til að draga úr kostnaði aukist sem því nemur. Fyrirtækin eru þá samanlagt laus undan þessari skattlagningu og má ætla að sú breyting skili sér í hagkvæmari kjörum til viðskiptavina bankanna og annarra fjármálafyrirtækja.

Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki flytja öllu lengra mál um þetta frumvarp. Ég vil þó nefna að fleiri atriði eru tiltekin í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem skipta máli. Eitt þeirra mála er innstæðutryggingargjaldið sem er lagt á og við erum með annað frumvarp, sem nú þegar er komið til nefndar, um að lækka það gjald. Það myndi sömuleiðis auka svigrúm fjármálafyrirtækja til að bjóða viðskiptavinum betri kjör.

Önnur atriði sem eru nefnd í því samhengi snúa að eiginfjáraukum á fjármálakerfið. Við erum með þá tiltölulega hátt stillta í dag, réttilega, vegna þess hvar við erum stödd í hagsveiflunni, en sú ábending er komin fram að við þurfum að gæta að því að stilla ekki kröfum um eigið fé í bankakerfinu svo hátt að þær samrýmist ekki vel ástandinu hverju sinni og komi í veg fyrir að bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki geti sinnt því mikilvæga hlutverki sem þeim er ætlað með því að vera of heftandi. Eiginfjáraukarnir og eiginfjárreglurnar eru þess vegna mjög mikilvæg í því samhengi en þau atriði sem snerta eigið féð kallast síðan á við áhættuvogina sem fjallar um það hversu mikið fé þurfi að binda vegna tiltekinna tegunda lána og hefur líka töluvert mikil áhrif.

Af hálfu fjármálafyrirtækjanna hefur því verið haldið fram að við séum hvað áhættumatsreglurnar varðar með tiltölulega ströng viðmið á Íslandi í dag. Ég held að það sé ekki óeðlilegt miðað við þá stöðu sem við erum nýkomin út úr með gríðarlega há vanskilahlutföll í bankakerfinu, en það er allt að breytast. Við þurfum áfram að halda vöku okkar fyrir ábendingum um atriði sem gætu mögulega dregið úr vaxtamun í íslenska fjármálakerfinu og þannig gagnast beint fyrirtækjum og heimilum. Það mál sem við erum með í höndunum er af þeim toga og ég tel að það sé gott ráð að láta það taka gildi sem fyrst, þ.e. að taka ákvörðun um að lækka skattinn og þá liggi fyrir lögfest fram í tímann hvernig skrefin verða stigin í því efni.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.