149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Það kemur nokkuð á óvart hversu þunnur þrettándinn er þegar kemur að umfjöllun um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni í þessari tillögu til þingsályktunar. Öllum sem hér á Alþingi starfa ætti að vera kunn umræðan sem stöðugt er uppi um mikinn aðstöðumun, bæði hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu og síðan kostnað sem hlýst af því að sækja heilbrigðisþjónustu af fjarsvæðunum, sérstaklega þriðja stigs þjónustuna sem er náttúrlega eingöngu veitt á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og að takmörkuðu leyti á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Framsögumaður meirihlutaálitsins, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, kom inn á í framsöguræðu sinni að það hefði verið reynt að horfa á heilbrigðismálin úr lofti, 30.000 fetum eins og það var orðað. Ég held að það skipti ekki öllu máli þegar kemur að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sérstaklega á þeim svæðum sem eru ekki í námunda við Reykjavík annars vegar og Akureyri hins vegar. Þá skiptir svo sem ekki öllu máli úr hvaða hæð horft á það. Staðan er snúin og kostnaður við að nýta sér þjónustu, kostnaður aðstandenda og þar fram eftir götunum er með allt öðrum hætti en er á þeim svæðum sem nær eru þessum tveimur sjúkrastofnunum sem veita þriðja stigs þjónustuna. Mér þykir mjög miður að sjá hversu létt er skautað fram hjá þessu atriði. Mig langaði til að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta atriði varðar.