149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil þakka honum fyrir að hann hefur bæði í ræðu og riti fjallað um mikilvægi þess að fara í það tilraunaverkefni að sjúkraflutningar verði með þyrlum á Suðurlandi. Ég held að þetta sé mjög brýnt verkefni. Þetta er eitt fjölmennasta svæði landsins þegar kemur að ferðamönnum. Þarna hafa því miður orðið tíð slys þar sem viðbragðstíminn skiptir öllu máli.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni með að þetta eigi ekki að vera inni í heilbrigðisstefnu. Við horfum til framtíðar, hvernig við viljum sjá fyrir okkur heilbrigðisþjónustu í framtíðinni. Það er einmitt það sem við höfum rætt varðandi þyrlurnar. Við viljum að sú þjónusta verði veitt í framtíðinni. Þess vegna held ég að það hefði verið mikilvægt að minnast einmitt á sjúkraþyrlu í þessari stefnu og ég sakna þess.

Það er annað að lokum sem mig langaði að nefna við hv. þingmann. Við höfum unnið saman að því málefni, ég og hv. þingmaður, og talað fyrir því að heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum verði bætt vegna fólksfjölgunar sem er fordæmalaus. Hefði ekki verið æskilegt í þessari stefnu að það hefði verið minnst á fólksfjölgun almennt, þ.e. að stefnan í heilbrigðismálum taki svolítið mið af fólksfjölgun á ákveðnum svæðum? Það er mjög brýnt. Við horfum fram á fordæmalausa fólksfjölgun eins og á Suðurnesjum. Er ekki eðlilegt að í stefnunni sé talað um að bregðast verði við hratt og vel ef sýnt er fram á óvenju mikla fólksfjölgun á ákveðnum svæðum?