149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:47]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga framsögu. Mig langar til að koma aðeins inn á það sem hann var að ræða hér, að það sé enginn vafi á að þessi innleiðing, þ.e. þingsályktunartillagan eins og hún er skrifuð, standist stjórnarskrá. Hann vísar þar í títtnefnt álit þeirra Friðriks og Stefáns.

Mig langaði til að árétta að sá vafi er enginn — að því gefnu að þessi títtnefnda reglugerð, 713/2009, einkum þær þrjár greinar sem við erum margbúin að tyggja á hér, verði ekki innleidd í íslenskan rétt. Ef hins vegar orkupakkinn yrði innleiddur eins og hann stendur, gengi það í berhögg við stjórnarskrána, eða alla vega léki á því mikill vafi.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um þessa fyrirvara, hvort hann þekki til einhverra fordæma þar sem EES-ríki hefur sett fyrirvara við innleiðingu gerðar á þennan hátt og þar sem þeir fyrirvarar hafa haldið. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram hvort þessi framkvæmd, þ.e. að innleiða pakkann en setja lagalega fyrirvara, sé þekkt fyrirkomulag og hvort það haldi lagalega þegar á reynir.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi umræðunnar og til að vekja traust fólks á því að hér sé ekki verið að fara gegn því sem búið er að boða.