149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

Isavia og skuldir WOW.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað mikilvæg atriði sem er hér verið að ræða og ég er í sjálfu sér ekki í aðstöðu til að fella neina dóma endanlega um það hvort alls staðar og á öllum stigum hafi ávallt verið tekin rétt ákvörðun, hvort sem er hjá Samgöngustofu, sem reyndar heyrir ekki undir mig og ráðuneyti mitt, eða inni í stjórn Isavia, sem er sjálfstæð stjórn. En það sem ég hef þó séð tel ég að hafi allt verið málefnalegt og reist á réttum grunni. Annars vegar hefur Samgöngustofa, eins og ég sé það, sagt sem svo að sú staða sem upp var komin hefði kallað á mjög náið eftirlit með starfseminni. Það var nánast andað niður um hálsmálið á fjármálastjóra félagsins og forstjóra um það nákvæmlega hver staðan væri á hverjum tíma og það þurfti að vera til staðar trúverðug áætlun um að vinna bug á því ástandi til að rekstrarleyfinu væri ekki kippt úr sambandi. Það var matsatriði á hverjum tíma sem iðulega var uppfært. (Forseti hringir.) Fyrir Isavia var það í raun sama, það þurfti að vera einhver áætlun um hvernig ætti að endurgreiða þá skuld sem var að byggjast upp og félagið þurfti að taka viðskiptalega ákvörðun um hvort menn vildu starfa samkvæmt þeirri áætlun eða ekki.