149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri skynsamlegt ef forseti gæti beitt sér fyrir því að þetta mál yrði skýrt með einhverjum hætti. Það er í fyrsta lagi afar veikt að þessi svokallaði fyrirvari sé í þingsályktunartillögunni. Maður veltir fyrir sér hvers vegna hann er ekki í þeim lagafrumvörpum sem liggja fyrir atvinnuveganefnd, (Gripið fram í.) sem er vitanlega miklu sterkara. Við verðum að hafa í huga að þingsályktunartillögur eru ekki jafn góð gögn og/eða jafn gildar og lög, ekki síst vegna þess að við höfum fengið, 2015 held ég að það hafi verið, álit fyrir utanríkismálanefnd þar sem fram kemur að ríkisstjórn er ekkert bundin af þingsályktun sem önnur ríkisstjórn hefur gert. Ef hér yrðu ríkisstjórnarskipti áður en hæstv. ráðherra, sem er búinn að lofa því að koma með þennan fyrirvara, nær að koma með hann fram gæti ríkisstjórnin sem tæki við sleppt því. Þess vegna er miklu betra að hnýta þetta í lög. Þingsályktunartillögur hafa ekki gildi (Forseti hringir.) fyrir þá sem taka við.