149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekkert hræddur við þann feril. Þetta er neyðarhemill sem við höfum og getum beitt með fullum rétti ef við teljum brýna nauðsyn til. Það er rétt að hafa í huga og muna að hinn eiginlegi lögformlegi ferill, sem við höfum hins vegar til að hafa áhrif, koma okkar sjónarmiðum á framfæri og gæta okkar hagsmuna, er á fyrri stigum málsins. Þar kemur þingið að líka með full tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í gegnum utanríkismálanefnd og viðkomandi fagnefndir eins og gert var í þessu máli. Þar var samþykkt á þeim tíma að ekkert væri því til fyrirstöðu að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn. Þar með féllum við í raun frá fyrirvörum hvað þetta mál varðar. Þessi lögformlega leið núna er vissulega neyðarhemill, en það er þá bara ef fram hafa komið einhver rök fyrir því að okkur hafi yfirsést eitthvað stórkostlegt í innleiðingarferli þessa máls. Þau rök hafa ekki komið fram. Við beitum ekki slíkum neyðarhemli í einhverju bríaríi þegar engin rök hníga til þess.