149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi umræðuna um fyrirvarana er þessi fyrirvari nokkuð skýr fyrir margra hluta sakir. Við erum með gagnkvæma yfirlýsingu um að þetta sameiginlega regluverk sameiginlegs orkumarkaðar Evrópusambandsins eigi ekki við meðan ekki sé til að dreifa flutningskerfi yfir landamæri, eins og staðan er hér. Það er sameiginlegur skilningur aðila.

Við erum jafnframt með fyrir þinginu lagafrumvarp þess efnis að flutningsmannvirki eins og sæstrengur verði ekki reist hér á landi nema með samþykki Alþingis. Það er mjög skýr lagalegur fyrirvari. Það þarf pósitíft samþykki Alþingis til að leggja hingað sæstreng.

Ég held að sá fyrirvari geti ekki orðið skýrari. Og ég hef fulla trú á því að sá fyrirvari muni halda því að það er augljóslega engin leið til að þvinga okkur til lagningar strengsins. Til þess þarf samþykki Alþingis. Þess utan finnst mér bara kjánalegt að hugsa til þess að menn haldi í alvörunni að einhver geti þvingað (Forseti hringir.) okkur til lagningar slíks sæstrengs með öllum þeim leyfum sem þyrfti að ganga frá hér innan lands.