149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru blikur á lofti í stjórnmálum um allan heim. Stjórnmálafólk sem leyfir sér að afvegaleiða umræðu og láta vísvitandi frá sér ósannindi virðist vera að gera sig æ meira gildandi og þeir hinir sömu stunda það gjarnan að tala niður eftirlitsstofnanir og ekki síður sérfræðinga. Þetta ástand hefur verið mér hugleikið undanfarnar vikur og mánuði. Að hálfsannleikurinn og beinlínis lygin fái að koma við sögu í litlum málum sem stórum, málum sem almenningur og fjölmiðlar láta líða fram hjá til að spara pláss fyrir stóru málin.

En þegar lygin í litlu málunum safnast saman hefur hún náð tilgangi sínum: Að skapa vantraust og mylja niður samfélagssáttmálann og samstöðuna. Búinn er til hópurinn: „við og þið“. Hálfsannleikur og ósannindi koma líka við sögu í stórum málum. Stundum gera stofnanir og sérfræðingar tilraun til að bregðast við og leiðrétta rangfærslurnar, en boðberar hálfsannleikans láta slíkt oft og tíðum ekkert á sig fá heldur halda áfram og taka þá til við að sá efasemdarfræjum um fagmennsku og hlutlægni sérfræðinga og fagstofnana. Þetta, herra forseti, á sér nú stað úti um allan heim í hinu pólitíska lífi og margir hafa haft af því áhyggjur.

Mig langar af þessu tilefni að grípa til bókarinnar Um harðstjórn eftir Timothy Snyder, sagnfræðiprófessor við Yale-háskóla, sem hefur sérhæft sig í sögu Mið- og Austur-Evrópu. Hann ritaði bók sína með undirtitlinum „Tuttugu lærdómar sem draga má af 20. öldinni“, en okkar ágæti hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson snaraði bókinni yfir á íslensku, fyrir þá sem vilja kynna sér tillögur Snyders á ylhlýrri íslenskunni.

Timothy Snyder segir m.a. í riti sínu, með leyfi forseta: Þegar maður varpar staðreyndum fyrir róða varpar maður frelsinu fyrir róða. Ef ekkert er satt getur enginn gagnrýnt vald því að þá er enginn grundvöllur fyrir því að gera það. Ef ekkert er satt er allt tómt sjónarspil. Eins og rannsakendur alræðisstefnunnar hafa bent á fer dauði sannleikans fram með ferns konar hætti. Í fyrsta lagi er það opinskár fjandskapur í garð staðreyndabundins veruleika sem lýsir sér í því að bera fram uppspuna og lygar eins og um staðreyndir sé að ræða. Í öðru lagi eru það síendurteknar töfraþulur, stagl án innstæðu. Í þriðja lagi bábiljur eða opinskár trúnaður við þverstæðuna þar sem hinu ólíklega er lofað, eigin ímyndanir gerðar að staðreyndum og jafnvel látið eins og ímynduð framtíðarsýn sé nútímastaðreynd.

Síðasti naglinn þegar kemur að alræði í ríkjum er rangsnúin trú eða sú staðfesta einræðisherrans að hann einn sé frelsarinn. Að hann einn hafi rétt fyrir sér og hann muni bjarga mannfólkinu, hann sé lausnin og hann sé röddin.

Allt þetta höfum við fyrir framan okkur í veraldarsögunni og jafnvel nærri okkur í nútímanum hér og þar. Við höfum dæmi um nákvæmlega þetta í Þýskalandi nasismans og meðal fasista á Ítalíu. En einnig í nútímastjórnmálamanninum sem hirðir lítt um staðreyndir mála heldur aðhyllist meira slagorð og upphrópanir hins eina máttuga lausnara og leiðtoga. Fasistarnir nýttu sér útvarpið til að bera út boðskapinn á meðan nútímamaðurinn nýtir sér samfélagsmiðlana og gríðarlega útbreiðslu þeirra. Nú eins og þá rugla margir saman staðreyndum máls og trú sinni á hinn óbrigðula en iðulega mjög svo breyska foringja. Það er í sjálfu sér mannlegt, sér í lagi í flóknum málum, en það er ekki endilega í þágu fjöldans, í þágu almennings.

Herra forseti. Fyrst ég er byrjuð að vitna í Snyder prófessor langar mig að greina frá því hvað hann segir um stofnanir, með leyfi forseta:

Stofnanirnar hjálpa okkur að standa vörð um almennt velsæmi. Þær þurfa líka á okkar hjálp að halda. Ekki tala um stofnanirnar okkar nema þú gerir þær að þínum með því að taka upp hanskann fyrir þær. Af því að stofnanirnar vernda sig ekki sjálfar. Þær falla hver af annarri nema hver og ein sé frá upphafi varin.

Veldu þér stofnun sem þér er annt um, dómstól, dagblað, lagastofnun, verkalýðsfélag, og stattu með henni. Við göngum iðulega út frá því að stofnanir hljóti að standast allt, jafnvel beinar árásir. Það voru mistökin sem ýmsir þýskir gyðingar gerðu varðandi Hitler og nasistana eftir að þeir mynduðu stjórn. Þann 2. febrúar 1933 birti t.d. eitt helsta dagblað þýskra gyðinga ritstjórnargrein þar sem því var haldið fram að nasistar færu ekkert skyndilega að svipta þýska gyðinga borgaralegum réttindum sínum eða að einangra þá í gettóum eða skilja þá eftir berskjaldaða gagnvart hatursfullum og blóðþyrstum múgnum.

Þetta töldu gyðingarnir í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar algjörlega óhugsandi, en það tók nasista innan við eitt ár að koma á nýrri skipan. Í lok árs 1933 var Þýskaland orðið eins flokks ríki þar sem búið var að múlbinda allar helstu stofnanir samfélagsins.

Hvers vegna dreg ég þetta fram núna? Jú, vegna þess að eins og ég sagði í upphafi þá eru blikur á lofti í stjórnmálum víða um heim þar sem rangfærslur úr munni stjórnmálamanna eru daglegt brauð og varla fréttaefni. Umræðan í aðdraganda Brexit-kosninganna var lítt þrungin af staðreyndum, eða það sem átti sér stað hjá ákveðnum öflum í okkar góða frændríki, Svíþjóð, í aðdraganda þingkosninga síðastliðið haust.

Mig langar líka að vitna í greinarkorn lögfræðingsins Gunnars Dofra Ólafssonar. Því að eins og hann segir þá þarfnast góður málstaður ekki ósanninda, hann þarfnast ekki hálfsannleika eða villandi framsetningar. Hann þarfnast hins vegar þess að hann sé settur fram á heiðarlegan og skiljanlegan hátt því að góður málstaður er stundum flókinn.

Bullyrðingar þær sem fengið hafa að vaða uppi í því máli sem við fjöllum hér um hafa allar verið hraktar, ýmist af innlendum eða erlendum sérfræðingum sem, hvort sem flytjendum bullyrðinga líkar betur eða verr, hafa sjaldnast einhverra hagsmuna að gæta annarra en að virða sérfræðiþekkingu sína og gæta að sinni faglegu æru. Hverjar eru þessar bullyrðingar sem hér eru á ferð? Snýst þriðji orkupakkinn um að hér megi leggja sæstreng, eins og haldið hefur verið fram? Snýst þriðji orkupakkinn um að erlendir auðhringir megi vaða hér um allt og vasast með orkuna okkar, eins og haldið hefur verið fram? Snýst þriðji orkupakkinn um að tryggja að verð á orku til neytenda á Íslandi rjúki upp úr öllu valdi, eins og haldið hefur verið fram?

Nei, herra forseti. Nei, virðulega Alþingi. Þriðji orkupakkinn snýst ekki um neitt af þessu. Ég skil vel þau sem höfðu í upphafi þessa máls áhyggjur af auðlindunum okkar. Sporin hræða og auðlindirnar okkar mega ekki og eiga alls ekki að vera einhver skiptimynt misviturra pólitíkusa. Þess vegna skiptir öllu máli að við öll hér inni sameinumst um að breyta stjórnarskránni okkar og setja inn í hana skýrt ákvæði um að auðlindir landsins séu eign þjóðarinnar og að þær megi ekki framselja. Fyrir því mun ég berjast og ég hvet þingmenn til að koma með í þá vinnu.

Við þá óttaslegnu landa mína vil ég segja þetta: Margir af okkar helstu lögspekingum hafa staðfest að þriðji orkupakkinn snýst ekki — alls ekki — um að „gambla“ með auðlindirnar okkar. Hér er heldur ekki um meira valdframsal að ræða en þekkst hefur t.d. af okkar ágæta samstarfi í EES. Við höfum verið í slíku samstarfi, hvort sem um er að ræða varðandi mannréttindi, flugöryggi eða fjármálaeftirlit, algerlega sambærilegu samstarfi. Við höfum líka verið í slíku samstarfi þegar kemur að samkeppnismálum. En það er einmitt það sem t.d. er verið að fjalla um hér, að auka samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.

Sömuleiðis er ekkert í þriðja orkupakkanum sem skyldar okkur til að einkavæða orkufyrirtækin okkar eða segir okkur hvar og hvenær við eigum að virkja. Í því samhengi má nefna að eins og regluverkið er í dag er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að ákveðið verði að leggja sæstreng, einkavæða raforkufyrirtækin eða selja orkuauðlindirnar okkar vegna þess að stjórnarskráin okkar ver okkur ekki fyrir slíku, fyrir slíkum geðþóttaákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Það er bara ekkert í þessum þriðja orkupakka sem hefur neitt með þetta að gera. Þriðji orkupakkinn tekur ekki það vald af okkur að setja skýrt ákvæði í stjórnarskrána.

Samkvæmt EES-samningnum ber EFTA-ríkjunum að tala einni röddu í sameiginlegu EES-nefndinni, sem þýðir að EFTA-ríkin þrjú verða að ná samkomulagi um niðurstöðu áður en kemur að ákvarðanatöku. Þá hefur líka verið rætt um það hér að eftir að búið sé að samþykkja málið hér á Alþingi, að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum á þinginu, eigi ESB-ríkin eftir að samþykkja málið í sameiginlegu EES-nefndinni. Það er ekki rétt af því að sameiginlega EES-nefndin er þegar búin að fjalla um málið. Þar tala EFTA-ríkin annars vegar og ESB-ríkin hins vegar saman um mál eins og þetta. Það er búið. Þau eru búin að ræða saman í þessari sameiginlegu EES-nefnd. Samt hefur verið þrástagast á því af hverju við prófum ekki að setja þetta mál í sameiginlegu EES-nefndina.

Í þessu samhengi langar mig líka að ítreka að þetta ferli varðandi þriðja orkupakkann er ekki ferli sem var að hefjast í gær. Það er ekki ferli sem hófst á borði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hæstv. utanríkisráðherra, eða í skúffu hjá Sjálfstæðisflokknum, heldur hefur málið verið í undirbúningi í fjöldamörg ár, eins og margoft hefur komið fram, sem þeir sem hvað mest óttast samþykki þessa máls hér á þingi hafa margsinnis fengið upplýsingar um og voru jafnvel beinir þátttakendur að. Eins og með önnur sambærileg mál hafa EFTA-ríkin komist að samkomulagi. Viðræður við framkvæmdastjórn ESB hafa átt sér stað og samkomulag um aðlögunartexta hefur verið staðfest.

Drög að ákvörðun hafa verið afgreidd af þingnefndum Alþingis, utanríkismálanefnd, atvinnuveganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Atvinnuveganefnd gerði einmitt athugasemdir á sínum tíma sem tekið var tillit til. Tekið var tillit til þess á fyrri stigum. Ríkisstjórn Íslands hefur veitt utanríkisráðherra umboð til að staðfesta ákvörðun með stjórnskipulegum fyrirvara. Framkvæmdastjórn ESB hefur óskað heimildar til að fá staðfestingar frá ráðherraráði ESB og ráðið hefur tekið ákvörðun um að veita framkvæmdastjórninni umboð. Ef þetta snýst um framsal fullveldis og stjórnarskrána okkar þá má kannski velta fyrir sér hvort við hefðum átt að sleppa þessu með EES-samninginn hérna fyrir 25 árum af því að þar er ákveðið framsal. Um það hafa lögfræðingar fjallað margoft, að þar sé eitthvert framsal, og við hefðum mögulega átt að setja eitthvað inn í stjórnarskrána þá.

Það eina sem felst í framsalinu hér er að framselja sértækar heimildir gagnvart ríkinu sjálfu á meðan t.d. evrópskt fjármálaeftirlit snýr bæði að stofnunum, lögaðilum og einstaklingum. ESA mun ekki fara að tala við stofnanir, lögaðila og einstaklinga varðandi orkuna okkar. Alþingi samþykkti það framsal athugasemdalaust án þess að hika. Sama má segja um framsal vegna Flugöryggisstofnunar Evrópu eða Evrópsku persónuverndarstofnunarinnar. Persónulega hef ég lengi velt fyrir mér hvað sé svona ofboðslega hættulegt við samstarf við önnur lönd, samstarf við aðrar þjóðir, sem snýst í grunninn ávallt um að við leggjum eitthvað fram og önnur lönd leggja eitthvað fram á móti og yfirleitt er komist að einhverri niðurstöðu sem er okkur í hag.

Fyrir smáríki eins og Ísland má segja að það að fá löggjöf á þennan hátt, tilbúna í gegnum EES-samninginn, sé svolítið eins og að fá far með fullbúnum bíl með vönum ökumanni sem er á sömu leið og við. Við getum rætt við ökumanninn og haft áhrif á leiðarvalið, en það væri ótrúlega skemmtilegt og gagnlegt, myndi ég segja, ef við værum bílstjóri. En af því að við erum ekki í Evrópusambandinu þá erum við ekki bílstjórinn. Ég myndi gjarnan vilja að við værum það, en það er annað mál.

Hvað varðar þennan þriðja orkupakka þá eru helstu nýmælin þau að aðgreina skal flutningskerfið frá öðrum rekstri á orkumarkaði. En Íslandi var veitt undanþága frá því ákvæði og ráðum við því sjálf hvernig eignarhald Landsnets er skipað.

Skoðun okkar í Samfylkingunni er auðvitað að eignarhald skuli ávallt vera okkar þjóðarinnar í gegnum ríkið. Væri gaman að heyra afstöðu Miðflokksmanna og -konu til þess. Eru þingmenn Miðflokksins á því að orkufyrirtækin okkar eigi að vera í ríkiseigu?

Þá eru í þriðja orkupakkanum ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlitsins. Þannig skal tryggja að eftirlitsaðili, sem hér er Orkustofnun, sé sjálfstæður bæði gagnvart aðilum á markaði og stjórnvöldum. Þannig fær eftirlitsaðili nýjar heimildir til að áminna og sekta fyrirtæki fyrir brot á reglunum og aukið hlutverk gagnvart neytendavernd og eftirlit með smásölu og heildsölumarkaði. Nokkuð sem ég held að sé bara hið besta mál.

Svo er sett á stofn samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eða ACER, sem ætlað er að aðstoða lögbundna eftirlitsaðila í störfum sínum og eftir atvikum samhæfa aðgerðir þeirra. Orkustofnunin okkar, hin alíslenska, mun taka þátt í störfum ACER fyrir hönd Íslands og tók á sínum tíma þátt í störfum forvera þeirrar stofnunar. ACER mun hins vegar ekki hafa neitt um Ísland að segja þar sem EFTA-ríkin — jú, munið þið, EFTA, Ísland er EFTA-ríki — munu veita ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, eins og ávallt, þær afmörkuðu valdheimildir sem ACER hefur á orkumarkaði ESB. ACER-grýlan, sem svo er merkt ítrekað, er því ekki fyrir hendi hjá okkur á Íslandi.

Já, það má ekki gleyma því að þegar kemur að IV. viðauka EES-samningsins, sem fjallar um orkumál og ýmsir hafa varað við að yrði tekinn úr sambandi ef við höfnum þriðja orkupakkanum, eru heilmiklir útflutningshagsmunir íslenskra fyrirtækja undir. Á Íslandi eru framleidd raftæki og seld á markaði í Evrópu á grundvelli laga um orkumerkingar og visthönnun vöru og fellur sú löggjöf undir IV. viðauka EES-samningsins um orkumál. Þarna erum við að tala um Marel, Skagann, 3X, Völku. Aðgangur að innri markaði EES í gegnum IV. viðauka er mjög mikilvægur út frá nýsköpun og frumkvöðlastarfi á sviði íslenskra grænna orkulausna og hugvits. Er þeim sem hvað harðast berjast gegn þriðja orkupakkanum kunnugt um það? Eru þeir meðvitaðir um það mikilvæga nýsköpunarstarf sem á sér stað á sviði orku á Íslandi?

Herra forseti. Farið hefur mikill kraftur og vinna í umræðu og umfjöllun um þriðja orkupakkann, sem er auðvitað hið besta mál. Ég vildi óska þess að við værum að setja jafn mikla orku og mikinn kraft í umræðu um mál sem hafa mun meiri áhrif á líf okkar, eins og t.d. loftslagsmálin. Hvernig væri nú að við tækjum okkur saman um að fjalla jafn ítarlega um það risastóra mál?

Ég er ekki að gera lítið úr þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hérna af því að hún er bara góð. Það þarf að skýra málin fyrir öllum og það tekur fólk mislangan tíma að átta sig á staðreyndum mála. Það er bara gott. Ég er ekkert syfjuð og þarf ekkert að fara heim snemma eða neitt slíkt. Ég get vel verið hér næstu nætur. Ég held að við getum verið sammála um mikilvægi þess að koma á skýru ákvæði í stjórnarskrána til að tryggja áframhaldandi óskorað eignarhald þjóðarinnar á orkuauðlindum.