149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Það vill svo skemmtilega til að ég fór á mjög svo fróðlegan fyrirlestur Skúla Magnússonar héraðsdómara á dögunum. Þar fór hann yfir þetta álit sitt og hvort við værum í einhverri hættu varðandi auðlindirnar okkar, varðandi fullveldisframsal, varðandi sæstreng þegar kemur að þriðja orkupakkanum.

Á þessum fundi voru fjölmargir sem vildu spyrja að þessu vegna þess hvernig umræðan hefur verið. Erum við í hættu með auðlindirnar okkar? Hvað ef, o.s.frv.? Þar tók hinn mæti lögspekingur, Skúli Magnússon, mjög skýrt dæmi eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi og sagði: Ég er t.d. með í minni álitsgerð dæmi, mögulegt dæmi, ef og hvað. Þetta dæmi sem hann er að taka, það er ekki staðan í dag. Það hefur ekkert með þennan þriðja orkupakka að gera. Hann tók það algerlega skýrt fram á þessum fundi, og gerir það svo sem líka í þessari álitsgerð, að þetta er eingöngu dæmi sem er verið að taka úr ókominni framtíð en engin staðreynd.

Þetta er það sem ég var einmitt að tala um í ræðu minni og vísaði í orð Timothy Snyders, hins virta sagnfræðiprófessors. Það er hættulegt þegar einræðisherrann, í því dæmi, tekur eitthvað sem er ekki staðreynd heldur fabúlering um mögulega framtíðarsýn og lætur eins og það sé staðreynd.