149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég get upplýst virðulegan forseta og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um það að ég er ekki að fara í háttinn. Ég ætla að nýta þessa nótt til að lesa Evrópureglugerðir og búa mig undir framhald þessara umræðna. Hins vegar virðist mér ljóst að hér séu þingmenn sem þurfi á því að halda að fá hvíld, komast í háttinn, til að mynda þingmaður sem kemur og flytur hreint út sagt brjálæðislega ræðu þar sem efasemdarmönnum um þriðja orkupakkann er líkt við nasista. Þó að sá forseti sem nú situr í forsetastóli tilheyri stjórnarandstöðu þá getur ekki verið að hæstv. forseti telji viðeigandi að meiri hluti stuðningsmanna stjórnarliðsins séu því sem næst kallaðir nasistar hér í ræðustól. Er þetta ekki skýr vísbending um að nú sé tímabært að gera hlé á fundum Alþingis og gefa a.m.k. sumum þingmönnum kost á að hvíla sig?