149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir ræðuna. Ég veitti því athygli að hann var orðinn mikill stuðningsmaður og ánægður með meginþætti þriðja orkupakkans, sem er svo sem ágætt að liggi fyrir. En það var eitt atriði sem ég tók sérstaklega eftir og það var það sem hann sagði um afhendingaröryggi.

Ég þekki ágætlega til tveggja svæða sem eiga við þetta vandamál að stríða. Það er annars vegar Akureyrarsvæðið og hins vegar Vestfirðir, þar sem staðan er mjög slæm. Heldur hv. þingmaður því í alvöru fram að innleiðing þriðja orkupakkans muni hafa áhrif á afhendingaröryggi umfram það sem við erum að vinna í og verið er að vinna á hinum ýmsu stöðum stjórnsýslunnar þessa dagana og misserin? Það eru algjörlega nýjar upplýsingar fyrir mig (Forseti hringir.) að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum verði mögulega kippt í lag með innleiðingu þriðja orkupakkans.