149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:57]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Ég er ekki reyndur maður hér á þingi. Þó hef ég komið nálægt ýmsum störfum sem myndu teljast samfélagsmál eða félagsmál og sinnt trúnaðarstörfum fyrir ákveðin samtök hér í bæ um nokkurt skeið. Varðandi vinnubrögð þá verð ég að segja eins og er að ég bjóst við meiru af hinu háa Alþingi.

Mig langar til að ræða aðeins við hv. þingmann um þessa fyrirvara. Hér hafa stjórnarliðar fullyrt í mín eyru að þeir liggi allir fyrir. Annars vegar er sagt: Það eru yfirlýsingar. Í annan stað er sagt að það sé frumvarp til laga frá hæstv. iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra og svo í þriðja stað frá formanni utanríkismálanefndar, að fyrirvararnir séu algerlega skýrir á bls. 3 í nefndarálitinu.

Lagalega fyrirvara hef ég ekki séð í nokkrum samningi nokkurn tímann hefjast á orðum sem þessum: „Verði þessi tillaga samþykkt“ eða „lagt er til að Alþingi heimili umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar“. Er ég alveg að misskilja þennan leik hérna með Alþingi og lagasetningu og formið, að það skipti máli? Eru þetta hinir lagalegu fyrirvarar? Er búið að bera þetta undir menn sem raunverulega hafa vit á lögum og geta sagt okkur hvað þetta er? Er þetta eitthvað sem stenst? Er þetta eitthvað sem mun halda?

Ég spurði áðan og það var þingmaður úr stjórnarliðinu sem lýsti því yfir í mín eyru að það hefðu verið settir fyrirvarar við sama mál hjá Norðmönnum. (Forseti hringir.) Það tekur ekki gildi fyrr en öll EES-ríkin (Forseti hringir.) hafa samþykkt þetta. Það hefur ekkert reynt (Forseti hringir.) á þau. Er hv. (Forseti hringir.) þingmaður sammála mér í þessu?