149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla nú að segja að ég lýsi ánægju minni með fundarstjórn forseta og segi enn og aftur að mér þykja menn taka svolítið stórt upp í sig þegar þeir brigsla forseta um óheilindi. Ég bið fólk um að anda með nefinu og tala varlega. Miðað við það sem ég hef hlustað á hér í kvöld, því menn spyrja hver annan sömu spurninganna ítrekað, þá hefði ég haldið að Miðflokksmenn væru búnir að ræða þetta sín á milli og þyrftu ekki að spyrja hver annan.

Hér var sagt að þingfundi hefði átt að ljúka á kringum 90 mínútum, haft eftir hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Ég vil nú segja að hann tiltók með hvaða hætti það væri hægt. Hann tiltók líka að það væri undir okkur þingmönnum sjálfum komið hversu langur þingfundurinn væri. Það tel ég að sé hárrétt mat. Miðflokksmenn sem hér eru í samtali við sjálfa sig (Forseti hringir.) geta að sjálfsögðu ákveðið hvort þeir halda því áfram eða ekki. En ég hvet forseta til að klára þessa umræðu.