149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vildi fyrst geta þess að hæstv. utanríkisráðherra var hér drjúgt í gær og fyrri part þessa fundar sem enn þá stendur og ég hygg að hann hafi ekki fengið neina fyrirspurn eða að neinn hafi beint máli sínu til hans. Ég hygg að það skýri fjarveru hans frá þessum fundi núna.

Ég verð að segja að miðað við það hvernig dagskráin stendur, það eru örfáar stuttar ræður eftir, ætti að vera leikur einn að ljúka þessum þingfundi. Ég myndi vilja hvetja forseta til að kanna hvort ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu núna með einni tíu mínútna ræðu og þremur fimm mínútna ræðum eða eitthvað svoleiðis eins og mælendaskráin gefur til kynna. Allir þeir sem eru á mælendaskrá hafa talað áður og sumir oft þannig að ekki verður sagt að þeir hafi ekki fengið tækifæri (Forseti hringir.) til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.