149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

loftslagsmál og flug.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, og fyrsta skrefið til að takast á við þetta er að fá heildarsýn á flugið allt. Því að flugið er ekki bara farþegaflug, það er líka flutningar, eins og hv. þingmaður nefndi. Hér hefur verið rætt um að það þurfi að fá sérstakar upplýsingar um flug herflugvéla í tengslum við heræfingar, sem er örugglega stór losunarvaldur í þessari jöfnu allri saman og skiptir máli að við höfum upplýsingar um það.

Ég held sömuleiðis að það sé erfitt að taka einn geira út fyrir sviga því að loftslagsbreytingar eru þannig mál að þær þurfa að hafa áhrif á stefnumótun okkar á öllum sviðum. Ég ætla t.d. að vekja athygli á einu sem lýtur að matvælastefnu, því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að kynna nýja innkaupastefnu fyrir matvæli. Eitt af því sem þar er lagt til er að neytendur fái upplýsingar um kolefnisfótspor matvæla.

Af því að hv. þingmaður talar um að Íslendingar geti lagt sitt af mörkum í framleiðslu matvæla, byrjum þá á því að skoða hvernig við getum styrkt innlenda matvælaframleiðslu hér á landi þar sem hlutur hennar gæti verið miklu meiri að mínu viti og við getum dregið verulega úr kolefnisfótspori flutnings á innfluttum matvælum.

Ég held að við eigum alveg ótrúlega mörg sóknarfæri ef við horfum á málin heildstætt og hugsum um hvernig við getum stigið eitt skref í einu að þessu mikilvæga markmiði.